mobile navigation trigger mobile search trigger
11.01.2021

Staða mála við Oddsskarðsveg – Vegurinn verður opnaður í þessari viku

Frá því um miðjan desember hefur vel verið fylgst með stöðu mála við Oddsskarðsveg ofan Eskifjarðar, vegna jarðsigs sem myndaðist í veginum í miklum rigningum. Vegurinn hefur verið lokaður frá því 18. desember, en nú hefur verið ákveðið í samráði við Vegagerðina og Veðurstofuna að opna hann að nýju enda hafa litlar sem engar hreyfingar mælst á svæðinu frá því 19. desember.

Staða mála við Oddsskarðsveg – Vegurinn verður opnaður í þessari viku

Í miklu rigningum um miðjan desember mynduðust sprungur á Oddsskarðsvegi ofan Eskifjarðar. Af þeim sökum þurfti að rýma íbúðarhús á Eskifirði þar sem óvissa var uppi með umfang þess svæðis sem var á hreyfingu.  Síðan hefur verið fylgst vel með svæðinu af hálfu Veðurstofunnar með mælingum og eftirliti. Sett voru upp mælitæki og myndavélar til að fylgjast náið með hvort frekari hreyfingar yrðu á svæðinu auk þess sem eftirlitsmenn hafa farið í ótal vettvangsferðir um svæðið. Frá 19. desember hefur lítil sem enginn hreyfing verið á svæðinu, og eru það afar góðar fréttir.

Vegna þessa hefur Vegagerðin í samráði við sérfræðinga á þeirra vegum ákveðið að hægt sé að opna Oddsskarðsveg fyrir umferð á nýjan leik fyrir létta umferð með ákveðnum takmörkunum. Gert er ráð fyrir að hámarkshraði verði 50 km.klst. og merktar verða þungatakmarkanir á veginum. Auk þess verður opnað fyrir einstaka ferðir snjómoksturstækja. Vinna við snjómokstur á veginum mun hefjast fljótlega, og stefnt er að því að Skíðasvæðið í Oddsskarði muni opna föstudaginn 15. janúar frá kl. 16 - 20.

Áfram mun verða fylgst vel með svæðinu, og þar þarf að gera frekari athuganir og mælingar til að komast til botns í því hverskonar hreyfing er að eiga sér stað. Ljóst er að endurskoða þarf fyrirliggjandi hættumat fyrir Eskifjörð, en sú vinna gæti tekið talsverðan tíma, enda þurfa viðamiklar rannsóknir og skoðanir þá að liggja fyrir. Viðræður munu fara fram á næstunni milli Fjarðabyggðar, Veðurstofunnar, Vegagerðarinnar og fleiri stofnana um hvort  verði hafist handa við gerð á bráðabirgðarhættumati fyrir svæðið, þannig að það geti legið fyrir í sumar.

Frétta og viðburðayfirlit