mobile navigation trigger mobile search trigger
09.04.2016

Þolmörk ferðamanna rannsökuð

Ferðamálastofa hefur látið rannsaka viðhorf ferðamanna til átta vinsælla ferðamannastaða á Suður- og Vesturlandi. Algengast var að ferðamönnum við Geysi þætti þar mikið af öðrum ferðamönnum.

Þolmörk ferðamanna rannsökuð

Rannsóknin leiddi í ljós að flestir upplifa fjölda ferðamanna og bifreiða hæfilegan á þessum átta stöðum. Jafnframt var ánægja með fjölda ferðamanna síst um sumarið.

Rannsóknin fór fram sumar og haust 2014 og veturinn 2015. Algengast var að ferðamönnum við Geysi þætti þar mikið af öðrum ferðamönnum; 36% um sumarið, 15% um veturinn og 10% um haustið. Næst algengast var þetta viðhorf meðal ferðamanna við Jökulsárlón; 35% um sumarið, 16% um veturinn og 8% um haustið. Á Þingvöllum var einnig talsvert um að ferðamenn þættu margir og einnig var nokkuð um það í Þórsmörk um sumarið.

Meginniðurstöður eru þær, að flestir ferðamenn eru ánægðir með náttúruna og dvölina á stöðunum. Ánægja er einnig mikil með göngustíga og þá sérstaklega á haustin. Ánægja með bílastæði var sömuleiðis mest á haustin. Á hinn bóginn var ánægja ekki eins mikil með þjónustu, sérstaklega um sumarið. Almennt þótti hreint á svæðunum en þó síst við Jökulsárlón og í Þórsmörk um sumarið. Geysir þótti hins vegar síst hreint af svæðunum um haustið og veturinn.

Ferðamálastofa fjármagnaði verkefnið sem stýrt var af dr. Önnu Dóru Sæþórsdóttur, dósent í ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Niðurstöður hafa verið gefnar út í skýrslu sem nefnist Þolmörk ferðamanna á átta vinsælum ferðamannastöðum á Suður- og Vesturlandi. 

Nánar um rannsóknina

Sjá skýrsluna

Frétta og viðburðayfirlit