mobile navigation trigger mobile search trigger
03.07.2020

Tilkynning frá aðgerðastjórn á Austurlandi

Norræna kom í gær til Seyðisfjarðar með 634 farþega að landi, þar af ríflega fjögur hundruð sem þurftu í sýnatöku. Ríflega þriðjungur sýna var tekinn um borð meðan Norræna var á leið til hafnar í Seyðisfirði af teymi á vegum HSA sem var í skipinu.

Tilkynning frá aðgerðastjórn á Austurlandi

Þá var farþegum leiðbeint við rafræna skráningu sem er forsenda sýnatökunnar. Á hafnarbakkanum biðu starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar og HSA-starfsmenn er fóru til aðstoðar við sýnatöku við komu rétt fyrir klukkan ellefu að morgni. Sýnataka gekk prýðilega og var lokið fjörutíu og fimm mínútum síðar. Norræna hélt úr höfn klukkan 12:40 og hafði þá verið við landfestar í klukkutíma og fjörutíu mínútur.

Enn er verið að slípa verklag við sýnatöku í Norrænu enda verkefnið stórt og umfangsmikið. Þess verður freistað fyrir næstu ferð að senda teymi frá Reykjavík til Færeyja sem framkvæmi sýnatöku um borð á síðari hluta siglingarinnar, þ.e. innan við tuttugu og fjórar sjómílur frá landi. Henni verði þá lokið þegar ferjan kemur til hafnar.

Farþegi er kom um borð í Norrænu í Hirtshals fékk þau tíðindi í kjölfar skimunar er hann hafði farið í áður, að hann væri smitaður af COVID-19. Hann var því einangraður í klefa sínum alla leiðina og hélt til síns heima í einangrun við komu. Hann var því ekki í neinum samskiptum við aðra farþega eða áhafnarmeðlimi um borð eða við komu til landsins. Í tilviki þessa einstaklings er í gangi rannsókn á því hvort mögulega er um gamalt smit að ræða.

Þá greindist einn farþegi með staðfest smit, í kjölfar skimunar um borð í Norrænu í gær. Vísbendingar eru um að það sé mögulega gamalt. Rannsókn er í gangi á því einnig. Sá farþegi er nú í einangrun. 

Aðgerðastjórn hefur orðið þess áskynja að íbúar eru uggandi yfir þeim fjölda farþega sem flæða inn í fjórðunginn með Norrænu vikulega. Hún vill því koma á framfæri að allir um borð fá ítarlegar leiðbeiningar um það hvernig skuli haga sér í landi og þá sér í lagi áður en niðurstöður sýnatöku liggja fyrir, að jafnaði innan við sólarhring eftir komu. Í því felst meðal annars að viðkomandi haldi hæfilegri fjarlægð frá öðrum og forðist snertingu eins og faðmlög og handabönd. Leiðbeiningar eru því ekki ósvipaðar þeim sem við heimamenn höfum fengið og eru í gildi meðan ástand þetta varir. Ef allir gæta að eigin smitvörnum, farþegar Norrænu og heimamenn, á þetta að ganga vel.

Frétta og viðburðayfirlit