mobile navigation trigger mobile search trigger
26.10.2020

Tilkynning frá aðgerðastjórn á Austurlandi 26. október

Enginn er með virkt COVID smit á Austurlandi.

Tilkynning frá aðgerðastjórn á Austurlandi 26. október

Skömmu eftir brottför Norrænu frá Hirtshals í Danmörku á laugardag á leið hennar til Seyðisfjarðar kom í ljós í kjölfar sýnatöku að tveir farþeganna voru með COVID smit. Þeir hafa síðan verið í einangrun um borð á leið sinni til Íslands. Tveir farþegar voru með þeim í för en reyndust ósmitaðir og hafa þeir verið í sóttkví um borð. Enginn þessara fjögurra hefur einkenni smits og ekki er talin ástæða til að ætla að smit hafi borist í farþega eða áhöfn. Fjórmenningarnir munu fara í sýnatöku við komu og ætti niðurstaða hennar að liggja fyrir seinnipartinn á morgun eða annað kvöld. Áframhaldandi sóttkví bíður þeirra og einangrun í samræmi við reglur.

Sýni verða samkvæmt venju tekin af öllum farþegum öðrum við komu til Seyðisfjarðar í fyrramálið. Þeir dvelja í sóttkví þar til niðurstaða seinni skimunar liggur fyrir að fimm til sex dögum liðnum. Tuttugu og sjö farþegar eru um borð.   

Smit greinast enn víða um land, flest á höfuðborgarsvæðinu. Óvænt hópsmit á Landakoti og í kjölfarið erfið staða á Landspítalanum sýnir glögglega mikilvægi þess að slaka hvergi á í persónubundnum smitvörnum. Vöndum okkur áfram, ferðumst ekki að óþörfu, munum fjarlægðarmörk, grímunotkun, handþvott og sprittnotkun.

Höldum áfram að gera þetta saman.

Frétta og viðburðayfirlit