mobile navigation trigger mobile search trigger
04.12.2020

Umhverfisátak í dreifbýli Fjarðabyggðar

Fjarðabyggð í samstarfi við Hringrás hefur síðustu mánuði unnið að umhverfisátaki í dreifbýli Fjarðabyggðar. Átakið gengur út á það að fá fjarlægt brotajárn og bílhræ af jörðum í sveitarfélaginu. 

Umhverfisátak í dreifbýli Fjarðabyggðar

Ekki verður annað sagt en að viðbrögð landeigenda hafi verið afar góð og hefur Hringrás nú tekið um 250 tonn af brotajárni hjá þeim sem tóku þátt.

Í september sl. var sent bréf til landeigenda þar sem umhverfisátakið var kynnt og þeim boðið að koma brotajárni s.s. ónýtum tækjum inn til endurvinnslu. Eina krafan sem gerð var til þátttöku í verkefninu var að aðgengi fyrir vörubíl og brotajárnsgáma væri gott. Fjarðabyggð tók á móti skráningum í verkefnið og kom þeim til Hringrásar sem í framhaldinu sá um að fjarlægja brotajárnið. Landeigendur fengu ýmist gáma sem þeir fylltu í sjálfir eða Hringrás kom með kranabíl til að hirða upp brotajárnið.

Það var von Fjarðabyggðar þegar verkefnið hófst að sem flestir tækju þátt, en það verður að segjast að þátttakan fór fram úr björtustu vonum. Fyrirhugað er að halda áfram með þetta samstarf Fjarðabyggðar og Hringrásar á komandi ári.

Fjarðabyggð vill þakka Hringrás fyrir gott samstarf og landeigendum fyrir frábærar viðtökur.

Umhverfis- og skipulagssvið

Frétta og viðburðayfirlit