mobile navigation trigger mobile search trigger
13.11.2015

Úrelt umræða um landsbyggðina

Er sú umræða ekki úrelt, að stilla landsbyggð og höfuðborg upp sem andstæðum? Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, velti nýlega upp þessari og fleiri áhugaverðum spurningum um ofanflóðavarnir og verðmætasköpun á landinu.

Úrelt umræða um landsbyggðina

Bæjarstjóri kom inn á þessi mál í viðtali Heimis Karlssonar og Gunnlaugs Helgasonar Í bítinu á Bylgjunni, sem tekið var í kjölfarið á tístum Gísla Marteins Baldurssonar um Norðfirðinga, snjóflóðavarnir og peninga.

Páll Björgvin benti m.a. á að mörg af stærstu tækifærum til vaxtar í atvinnulífi landsmanna liggi í hinum dreifðu byggðum. Án þeirra samfélagslegu innviða sem dreifast um landsbyggðina gæti ferðaþjónusta sem dæmi átt erfitt uppdráttur. Einnig sé í þessu tilviki nærtækt að líta til sjávarútvegarins, þar sem ein stærsta fiskihöfn og fiskiðjuver landsins eru staðsett í Neskaupstað.

Einnig benti Páll Björgvin á að ofanflóðavarnir væru að langstærstum hluta kostaðar af brunatryggingagjaldi eða að 9/10 hluta og að 1/10 af viðkomandi sveitarfélagi. Það kæmi síðan í hlut stjórnvalda að ráðstafa þessu gjaldi hverju sinn.

Mikil umræða spannst um tístin hans Gísla Marteins í vikunni sem leið. Lýsti m.a. Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, þessari umræðu sem þeirri dapurlegustu sem hann hafði lengi séð, í viðtali á eyjan.is.

Frétta og viðburðayfirlit