mobile navigation trigger mobile search trigger
26.07.2016

Tilfinningaþrungin stund

Blómsveigar voru lagðir að róðukrossi Franska grafreitsins á Fáskrúðsfirði, í athöfn sem fram fer á Frönskum dögum í minningu þeirra frönsku sjómanna sem farist hafa á sjó. Athöfnin var tilfinningaþrungin fyrir Maxime Normand, sem vitjaði leiði afa síns fyrstur afkomenda. Talið er að um 4.000 franskir sjómenn hafi farist við Íslandsstrendur á árunum 1830 til 1930.

Tilfinningaþrungin stund
Danielle Genevet, borgarfulltrúi Gravelinesborgar, flutti minningarorð. Einnig þakkaði hún íbúum Fjarðabyggðar fyrir að standa vörð um minningu frönsku skútusjómannanna. (Ljósmynd JGÓ)

Athöfnina leiddi sr. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, sóknarprestur á Fáskrúðsfirði. Systir Victoria, kaþólska söfnuðinum á Kollaleiru, flutti bæn og Berta Dröfn Ómarsdóttir, söng ljóð Davíðs Stefánssonar Til eru fræ (lag erl.)

Venju samkvæmt voru tveir blómsveigar, með annars vegar franskri og hins vegar íslenskri áletrun, lagðir að róðukrossi grafreitsins. Annan kransinn báru Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar, Bertrand Ringot, borgarstjóri og Christelle Deneuville, borgarfulltrúi Gravelinesborg, en hinn Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, Philippe O'Quin, sendiherra Frakklands á Íslandi og Valerie Genevet, borgarfulltrúi Gravelineborg.

Minningarathöfninni lauk svo með táknrænni rósafleytingu í fjörunni fyrir neðan grafreitinn. 

Löng hefð er fyrir því að fulltrúar Gravelinesborgar, vinabæjar Fjarðabyggðar á norðurströnd Frakklands, taki þátt í minningarathöfninni ásamt sendiherra Frakklands á íslandi, sem tileinkuð er þeim 4.000 frönsku sjómönnum sem hlutu vota gröf við Íslandsstrendur. Í Franska grafreitnum eru hvíla 49 sjómenn. Af þeim eru þrjár grafir ómerktar. 

Með frönsku sendinefndinni í för var Maxime Normand, 75 ára gamalt afabarn skútusjómannsins Piérre Joseph Coubel, sem hvílir í grafreitnum og er Maxime fyrsti afkomandi afa síns sem vitjar hans. Maxime hafði meðferðis frá Gravelines mold af leiði ömmu sinnar, sem hann dreifði yfir leiði afa síns og lítinn minningarskjöld sem hann festi á leiðiskrossinn, með aðstoð Páls Björgvins, bæjarstjóra.

Að því búnu lagði Maxime lítinn rósavönd á leiðið og signdi. Var þessi einfalda athöfn tilfinningaþrungin fyrir ekki aðeins Maxime heldur einnig aðra viðstadda.

Fleiri myndir:
Tilfinningaþrungin stund
Sr. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir leiddi minningarathöfnina.
Tilfinningaþrungin stund
Systir Victoria, kaþólska söfnuðinum á Kollaleiru á Reyðarfirði, flutti bæn. (Ljósmynd JGÓ)
Tilfinningaþrungin stund
Berta Dröfn Ómarsdóttir söng einsöng. (Ljósmynd JGÓ)
Tilfinningaþrungin stund
Minningarorð fluttu Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, Bertrand Ringo, borgarstjóri Gravelinesborgar og Philippe O'Quin, sendiherra Frakklands á Íslandi. Sá síðastnefndi talaði að hluta til á íslensku. (Ljósmynd JGÓ)
Tilfinningaþrungin stund
Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, Bertrand Ringot, borgarstjóri og Christelle Deneuville, borgarfulltrúi Gravelinesborg. (Ljósmynd JGÓ)
Tilfinningaþrungin stund
Phillippe O'Quin, sendirherra Frakklands, Danielle Genevet, borgarfulltrúi Gravelinesborg og Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar. Til vinstri má sjá Líneik Önnu Sævarsdóttir, Fáskrúðsfirðing og alþingismann.
Tilfinningaþrungin stund
Tveir blómsveigar eru lagðir að róðukrossi grafreitsins, annar með minningarorðum á frönsku og hinn á íslensku. (Ljósmynd JGÓ)
Tilfinningaþrungin stund
Maxime Normand festir minningarskjöld á leiði afa síns og naut aðstoðar Páls Björgvins, bæjarstjóra, við verkið. (Ljósmynd JGÓ)
Tilfinningaþrungin stund
Maxime Normand við leiði afa síns ásamt Jónínu Björg Halldórsdóttur og Páli Björgvini, bæjarstjóra. (Ljósmynd JGÓ)

Frétta og viðburðayfirlit