Vor í Fjarðabyggð
Árleg vorhreinsun í Fjarðabyggð
Fjarðabyggð boðar til árlegrar vorhreinsunar dagana 20. – 25. maí 2024. Bæjarstarfsmenn munu sjá um að hirða alla ruslapoka og annað rusl sem safnast hefur saman í lok ruslatínslu. Við hvetjum alla íbúa, fyrirtæki, félagasamtök, og skóla til að taka þátt í þessu samfélagsverkefni og leggja sitt af mörkum. Gerum okkur glaðan dag og tökum höndum saman að fegra nærumhverfið. Við hvetjum til almenns viðburðarhalds eins og t.d. hverfagrill eða skemmtilegra viðburða í lok hreinsunnar.
Fylgið okkur á samfélagsmiðlum undir #voríFjarðabyggð og ,,tagga" okkur á @Fjarðabyggð
Hægt verður að nálgast poka í þjónustumiðstöðvum Fjarðabyggðar.
Vorvindar glaðir
Vorvindar glaðir, glettnir og hraðir,
geysast um löndin rétt eins og börn.
Lækirnir skoppa, hjala og hoppa,
hvíld er þeim nóg í sæ eða tjörn.
Hjartað mitt litla, hlustaðu á,
hóar nú smalinn brúninni frá.
Fossbúinn kveður, kætir og gleður.
Frjálst er í fjallasal.
Helgi Valtýsson
Vertu með í því að koma Fjarðabyggð í sumarbúninginn. Leggjum saman hönd á plóg og skiljum eftir umhverfi sem við getum öll verið stolt af. Með sameiginlegu átaki getum við gert kraftaverk. Þín þátttaka skiptir máli – Látum gott af okkur leiða í vorhreinsun Fjarðabyggðar 2024.
Vorbæklingur Fjarðabyggðar
Í tengslum við "Vor í Fjarðabyggð" hefur Fjarðabyggð gefið út bækling með ýmsum upplýsingum um vorverkin, upplýsingum um þjónustu og annað. Árið 2021 var ákveðið að bæklingurinn yrði gefin út rafrænt og gafst það fyrirkomulag vel. Í ár verður því sami háttur hafður á og verður bæklingurinn aðgenglegur hér að neðan innan skamms.
Hér er hægt að nálgast bæklinginn: Vor í Fjarðabyggð
Fyrir áhugasama er hægt að nálgast umhverfisstefnu Fjarðabyggðar hér
Gróðursetningardagar í Breiðdalsvík og á Fáskrúðsfirði
Í ár verða gróðursetningardagar þann 21. maí á tjarnarsvæðinu í Breiðdalsvík og þann 23. maí á Fáskrúðsfirði við Ósinn. Viðburðurinn hefst á báðum stöðum klukkan 13:00 og stendur fram eftir degi. Plöntum og búnaði er úthlutað á staðnum og eru íbúar hvattir til að mæta og taka þátt. Viðburðirnir verða undir handleiðslu og stjórn garðyrkjustjóra Fjarðabyggðar.