mobile navigation trigger mobile search trigger

Söfn og sýningar

Söfnin í Fjarðabyggð eru jafn ólík og þau eru mörg. Sjóminjasafn Austurlands á Eskifirði geymir gagnmerkar heimildir um atvinnusögu landsmanna, í útgerð, verslun, smáiðnaði og lækningum. Íslenska stríðsárasafnið á Reyðarfirði er merk heimild um hernám landsins og síðari heimsstyrjöldina, með hersetu Reyðarfjarðar í forgrunni. Safnið er það eina hér á landi sem gerir atburðum stríðsáranna skil, eins og þeir komu almenningi fyrir sjónir á þessum viðsjárverðu tímum. Safnið Fransmenn á Íslandi segir sögu franskra skútusjómanna á Fáskrúðsfirði. Raunsannri mynd er brugðið upp af lífi þeirra og kjörum ásamt merku framlagi Frakka hér á landi í m.a. þróun húsagerðar og heilbrigðisþjónustu. 

Í Safnahúsinu á Norðfirði, eru þrjú og ekki síður áhugaverð söfn til húsa. Náttúrugripasafnið á Norðfirði lýsir náttúru Austurlands með aðgengilegum og lifandi hætti. Sjóminja- og smiðjumunasafn Jósafats Hinrikssonar snýr að hand- og iðnverki fyrri tíðar. Á jarðhæð Safnahússins er svo Myndlistarsafn Norðfirðingsins Tryggva Ólafssonar. Safnið er stærsti eigandi að verkum þessa óvenjulega listamanns og er ný sýning sett upp á verkum hans á hverju ári. Söfnin eru opin alla daga vikunnar yfir sumartímann. Á öðrum tímum ársins eru þau opin eftir samkomulagi. Tekið er við bókunum á sofn@fjardabyggd.is eða í síma 470-9000. 

Opnunartímar  
Safn Heimilisfang Staður Sími Sumaropnun
Safnahúsið Norðfirði   Egilsbraut 2 Norðfjörður 477 1446  13:00 - 17:00
Sjóminjasafn Austurlands Strandgötu 39b Eskifjörður 476 1605  13:00 - 17:00
Íslenska Stríðsárasafnið Heiðarvegi 37 Reyðarfjörður 470 9011  13:00 - 17:00
Frakkar á Íslandsmiðum Hafnargata 12 Fáskrúðsfjörður 475 1170  10:00 - 18:00

Safnahúsið, Sjóminjasafnið og Íslenska stríðsárasafnið eru opin alla daga vikunnar frá 1. júní - 31. ágúst.

Frakkar á Íslandsmiðum er opið alla daga vikunnar frá 15. maí - 30. september.

Menningarstofa Fjarðabyggðar veitir nánari upplýsingar á netfanginu sofn@fjardabyggd.is eða í síma 470 9000.

Sjóminjasafn Austurlands

Sjo_esk_18_s.JPG

Í safninu eru munir sem tilheyra sjósókn og vinnslu sjávarafla.  Einnig eru þar verslunarminjar og hlutir sem tilheyra ýmsum greinum iðnaðar og lækninga frá fyrri tíð. Sjóminjasafnið er í gömlu verslunarhúsi, Gömlu búð, sem var byggt 1816.

Íslenska stríðsárasafnið

Str_Rey_18_s.JPG

Á Íslenska stríðsárasafninu ferðast gestir meira en 70 ár aftur í tímann eða allt aftur til daga seinni heimsstyrjaldarinnar. Safnið veitir lifandi innsýn í lífið á stríðsárunum, áhrif hersetunnar á íslensku þjóðina og tíðaranda. 

Stríðsárasafnið verður opnað sumarið 2024

Diversion to Iceland - dagbók Ron Davies 

Safnahúsið á Norðfirði

Safnahúsið í Neskaupstað

Húsið, sem á sér merka sögu, hefur að geyma þrjú glæsileg og afar ólík söfn undir sama þaki eða Náttúrugripasafnið, Myndlistarsafn Tryggva Ólafssonar og Sjóminja- og smiðjusafn Jósafats Hinrikssonar.

Myndlistarsafn Tryggva Ólafssonar

Tryggvasafn

Tryggvi Ólafsson er fæddur árið 1940 í Neskaupstað. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1960-61 og við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn 1961-66. Tryggvi er meðal þekktustu núlifandi myndlistarmanna Íslendinga. Safnið er staðsett á jarðahæð Safnahússins.

Sjóminja- og smiðjumunasafn

Sjóminja- og smiðjumunasafn Jósafats Hinrikssonar

Á sjóminja- og smiðjusafni Jósafats Hinrikssonar eru áhugaverðir hlutir sem tengjast sjávarútvegi, bátasmíði, járn- og eldsmíði og einnig gömlum atvinnuháttum á Íslandi. Þarna er að finna eftirlíkingu af eldsmiðju föður Jósafats þar sem Jósafat lærði og hóf starfsferil sinn. Safnið er staðsett á annarri hæð Safnahússins.

Náttúrugripasafnið

Náttúrgripasafnið í Neskaupstað - Safnahúsinu

Náttúrugripasafnið sýnir dýra-, plöntu- og steinaríki Austurlands í skemmtilegri nærmynd. Einnig er ýmsum fisktegundum við landið gerð skil. Sýningar eru aðgengilegar og býður safnið upp á fræðandi heimsókn fyrir alla fjölskylduna. Það er staðsett á efstu hæð Safnahússins.    

Frakkar á Íslandsmiðum

Fra_Fask_18_s.JPG

Í safninu er saga franskra skútusjómanna á Íslandi rakin, en Fáskrúðsfjörður var helsta bækistöð þeirra hér við land. Blómatími Frakka á Íslandsmiðum hófst um 1860 og stóð um 50 ára skeið. Safnið er í frönsku húsunum á Fáskrúðsfirði og er allt hið glæsilegasta. Endurbyggingu húsanna lauk sumarið 2014. Símanúmer 475 1170 eða 470 9063

Söfnin í Fjarðabyggð

Fransmenn á Íslandi - Haf minninganna

Tekið er við hópapöntunum í söfnin í Fjarðabyggð eða óskum um opnun safna utan hefðbundins opnunartíma á netfanginu sofn@fjardabyggd.is eða í síma 470 9063. Nánari upplýsingar um söfnin í Fjarðabyggð eru á www.visitfjardabyggd.is.