mobile navigation trigger mobile search trigger
26.04.2017

Aðför að sjálfstjórn sveitarfélaga

Bæjar- og sveitarstjórar á Austurlandi og Vestfjörðum mótmæla harðlega frumvarpi umhverfis- og auðlindaráðherra að nýju haf- og strandsvæðaskipulagi.

Aðför að sjálfstjórn sveitarfélaga
Mynd úr Reyðarfirði

Um alvarlega aðför að sjálfstjórn sveitarfélaga sé að ræða og forræði þeirra í skipulagsmálum. Brýnt sé að ráðherra hlusti á sjónarmið sveitarfélaga.

Í sameiginlegri yfirlýsingu bæjar- og sveitarstjóranna er ráðherra bent á að skipulagsmál séu eitt mikilvægasta stjórntæki sveitarstjórna. Skipulagsáætlanir endurspegli á lýðræðislegum grunni vilja fólks á hverjum stað og framtíðarsýn þess varðandi þróun nærsamfélagsins.

Lögð er þung áhersla á að skipulagsskylda haf- og strandsvæða verði bundin í lög og er í því sambandi bent sérstaklega á fyrirliggjandi stefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga þess efnis, að skipulag strandsvæða verði á forræði sveitarfélaga allt að einni sjómílu út frá grunnlínu landhelginnar.

Í ljósi þess að skýr stefna liggur fyrir að hálfu sveitarfélaga, er það talið sérstaklega ámælisvert að ekki skuli í frumvarpinu skilið á milli skipulags hafsvæða, sem ætti að vera á hendi ríkisins og skipulags strandsvæða, sem ætti að vera á hendi sveitarfélaga.

Í yfirlýsingunni segir m.a. að með því að skilja ekki á milli hafsvæða og strandsvæða, geri frumvarpið ráð fyrir að innfirðir og flóar verði slitnir úr eðlilegu samhengi við staðbundnar skipulagsáætlanir. Sú skerðing á skipulagsvaldi sveitarfélaga sem slík tilhögun leiðir af sér, gangi m.a. gegn grundvallarmarkmiðum laga um sjálfbæra nýtingu og verndun auðlinda í þágu efnahagslegrar uppbyggingar og félagslegrar velferðar. Þá lúti sn. svæðisráð, sem gert er ráð fyrir að afgreiði haf- og strandsvæðaskipulag, meirihlutavaldi ráðuneytisskipaðra fulltrúa. Sú tilhögun gangi ekki aðeins þvert á lýðræðislegan grunn skipulagslaga heldur einnig á þá meginreglu að efla skuli staðbundið vald og ákvarðanatöku með tilliti til almannahagsmuna og skynsamrar meðferðar opinberra fjármuna.

Undir yfirlýsinguna rita allir bæjar- og sveitarstjórar á Austurlandi ásamt bæjar- og sveitarstjórum Ísafjarðarbæjar, Vesturbyggðar, Tálknafjarðarhrepps og Súðavíkurhrepps.

Nánari upplýsingar veitir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar,
á pall.b.gudmundsson@fjardabyggd.is eða í síma 895 6810 og Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, á gisli@isafjordur.is eða í síma 450 8000.

Bréf til umhverfis- og auðlindaráðherra (PDF)

Frétta og viðburðayfirlit