mobile navigation trigger mobile search trigger
22.07.2017

Sameiginleg ályktun vegna áhættumats Hafrannsóknastofnunar

Bæjarráð Fjarðabyggðar og sveitarstjórn Djúpavogshrepps hafa ákveðið að leggja fram eftirfarandi ályktun vegna áhættumats Hafrannsóknarstofnunar vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi, sem birt var nú í júlímánuði.

Sameiginleg ályktun vegna áhættumats Hafrannsóknastofnunar
Frá uppsetningu sjókvíar í Reyðarfirðði 12. júní sl. (G. Halldórsson)

Bæjarráð Fjarðabyggðar og sveitarstjórn Djúpavogshrepps hafa þungar áhyggjur af stöðu framtíðaruppbyggingar fiskeldis á Austfjörðum út frá þeim forsendum sem áhættumat Hafrannsóknarstofnunar byggir á.

Eins og atvinnuuppbygging á suðurfjörðum Vestfjarða er til marks um, bendir flest til þess að fiskeldi feli í sér eitt helsta sóknarfæri jaðarbyggða í atvinnuþróun og samfélagslegri uppbyggingu. Í ljósi þess falast sveitarstjórnir Fjarðabyggðar og Djúpavogshrepps eindregið eftir fundi með ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála og forsvarsmönnum Hafrannsóknarstofnunar við fyrsta tækifæri, svo fara megi yfir þau efnislegu rök sem standa til jafn umsvifamikillar skerðingar á fiskeldi á Austfjörðum og lagt er til í niðurstöðum áhættumatsins.

Jafnframt er lögð áhersla á að stjórnvöld skjóti allri ákvarðanatöku á frest sem byggir með einhverju móti á áhættumatinu þar til ljóst er að forsendur matsins séu réttar.

Frekari upplýsingar veita Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, 895 6810 og Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps, 843 9889.