mobile navigation trigger mobile search trigger

Undrumst, fræðumst, gleðjumst og sjáumst

15.10.2016

Klukkan 12:00 - 16:00

Tæknidagur fjölskyldunnar verður í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað þann 15. október nk. Fjöldi fyrirtækja á Austurlandi kynnir nýjasta nýtt, Ævar vísindamaður verður á á staðnum og verkmenntaskólinn fagnar 30 ára starfsafmæli sínu.

Undrumst, fræðumst, gleðjumst og sjáumst

Hinn árlegi Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands laugardaginn 15. október. Sem fyrr er dagurinn tileinkaður tækni, vísindum, sköpun og þróun á Austurlandi og miðast dagskráin við alla aldurshópa. Ýmislegt verður í boði að þessu sinni, til dæmis verður reynt að ganga á vatni í fyrsta sinn í sögu Austurlandsfjórðungs.

Einnig verður boðið upp á veitingar í tilefni af 30 ára afmæli Verkmenntaskóla Austurlands.

Tæknidagur fjölskyldunnar hefur verið haldinn síðan 2013. Hann hefur alltaf tekist með eindæmum vel og er orðinn fastur liður í viðburðaflóru haustsins hér eystra. Áætlað er að fjöldi gesta í fyrra hafi verið um sjö hundruð manns en fjöldinn hefur farið stigvaxandi frá byrjun.   

Þetta er í fjórða sinn sem Austurbrú ses. og Verkmenntaskóli Austurlands taka höndum saman og skipuleggja daginn en markmiðið með Tæknidegi fjölskyldunnar er sem fyrr að vekja athygli á fjölbreyttum og spennandi viðfangsefnum tækni, verkmennta og vísinda í okkar nærumhverfi  og varpa ljósi á þau fjölbreyttu störf á þessum vettvangi sem unnin eru á svæðinu.

Um leið er sýnt hvað tækni og vísindi geta vera skemmtileg og „venjulegt“ fólk mætir á Tæknidaginn og framkvæmir skemmtilegar vísindatilraunir. Á Tæknideginum ár verður meðal annars gerð tilraun til að ganga á vatni og leyndardómurinn um þann gjörning ef til vill afhjúpaður.

Að Tæknidegi fjölskyldunnar kemur fjöldi fyrirtækja á Austurlandi, sem sýnir fjölbreyttar tæknilausnir. Gestum gefst m.a. kostur á að kynnast  þyrluflugi í gegnum sýndarveruleikagleraugu, rafmagnsframleiðslu með vindmyllum, eldsmíði upp á gamla mátann, landmótun í sandkassa, hrálýsi úr loðnu og fleiru og fleiru. Þá verður Ævar vísindamaður á staðnum og sýnir börnum inn í töfraheim vísindanna.

Tæknidagur fjölskyldunnar 2016 verður 15. október, klukkan 12:00 – 16:00, í húsnæði Verkmenntaskóla Austurlands. Þennan dag ætlar skólinn jafnframt að fagna þrjátíu ára afmæli sínu og býður upp á veitingar af því tilefni.