mobile navigation trigger mobile search trigger
25.10.2017

Aukið líf færist í Valhöll og Félagslund

Í dag skrifuðu þeir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, og Friðþjófur Tómasson, formaður félagsins Vinir Valhallar, undir samning þess efnis að félagið taki að sér umsjón með félagsheimilinu Valhöll á Eskifirði.

Aukið líf færist í Valhöll og Félagslund
Páll Björgvin Guðmundsson og Friðþjófur Tómasson við undirritun samningsins í dag

Í samningnum felst að Vinir Valhallar tryggja að húsið sé starfhæft og tilbúið til leigu undir viðburði auk þess sem þeir sjá um utanumhald með leigu hússins. Félagasamtökin Vinir Valhallar eru áhugamannahópur sem er annt um Valhöll og vill leggja sitt af mörkum til að koma húsinu í gott stand og sjá  meira líf í því

Á dögunum samþykkti bæjarráð Fjarðabyggðar einnig að fara í framkvæmdir við Félagslund á Reyðafirði til að þar verði hægt að koma fyrir einni leikskóladeild frá leikskólanum Lyngholti. Með því er brugðist við þörf vegna fjölgunar barna á leikskólaldri á Reyðarfirði um næstu áramót.

Með þessu hafa öll félagsheimili í Fjarðabyggð gengið í gegnum endurnýjun lífdaga undanfarið. Á árinu 2016 var farið í framkvæmdir í Egilsbúð í Neskaupstað í samstarfi við SÚN og þá var einnig samningur gerður við Hljóðkerfaleigu Austurlands um rekstur Egilsbúðar. Í Skrúð á Fáskrúðsfirði hefur slysavarnardeildin Hafdís haft umsjón með húsinu og þar hafa Hollvinasamtök félagsheimilisins Skrúðs unnið að viðhaldi húsins í samstarfi við Fjarðabyggð.

Í félagsheimilinu Sólbrekku í Mjóafirði er líflegt á sumrin en þar er rekið kaffihús. Á Stöðvarfirði hefur verið farið í talsvert viðhald á samkomuhúsinu og  þar hefur Salthúsmarkaðurinn verið starfræktur yfir sumartímann  en á veturna er húsið nýtt undir starfsemi félagsmiðstöðvarinnar Stöðinn.

Fleiri myndir:
Aukið líf færist í Valhöll og Félagslund
Félagslundur fær fljótlega nýtt og spennandi hlutverk og mun hýsa deild frá Leikskólanum Lyngholti

Frétta og viðburðayfirlit