mobile navigation trigger mobile search trigger

Miðvikudaginn 8. mars varð Fjarðabyggð þátttakandi í verkefninu um Heilsueflandi samfélag þegar skrifað var undir samning við Embætti landlæknis þess efnis. Það voru þeir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, og Birgir Jakobsson, landlæknir, sem skrifuðu undir samninginn í Fjarðabyggðarhöllinni.

Heilsueflandi samfélag er samfélag sem leggur áherslu á að heilsa og líðan allra íbúa sé höfð í fyrirrúmi í allri stefnumótun. Í slíku samfélagi er jafnframt lögð áhersla á að bæta félagslegt og manngert umhverfi íbúa, draga úr ójöfnuði og á margskonar forvarnar- og heilsueflingarstarf til þess að draga úr tíðni og afleiðingum langvinnra sjúkdóma. Heilsa er meira en það að vera laus við sjúkdóma og örorku heldur snýst hún um líkamlega, andlega og félagslega vellíðan.

Dæmi um hluti sem geta haft áhrif á heilsuhegðun fólks eru samgöngur, aðgengi að byggingum og þjónustu, heilbrigðisþjónusta, félagsleg þjónusta, skólasamfélagið, aðbúnaður eldri borgara, félagsleg þjónusta, forvarnir og öryggismál, æskulýðs- og íþróttastarf, hönnun hverfa og bygginga og skipulagsmál almennt. Hvert samfélag getur valið sína leið til heilsueflingar en stjórnsýsla, einstaklingar og umhverfi móta samfélagið í sameiningu. Leiðin getur t.d. byggst á því að samfélög styðjist við opinberar ráðleggingar um mataræði þegar ákvarðanir eru teknar um næringu íbúa, t.d. varðandi skólamáltíðir og tryggja gott aðgengi að hollri matvöru í stofnunum.

Það þarf einnig að huga að skipulagi og hönnun sem ýtir undir hreyfingu, t.d. með göngu- og hjólreiðastígum, grænum svæðum og leiksvæðum. Einnig að tryggja gott framboð og aðgengi að skipulagðri hreyfingu fyrir íbúa á öllum aldri og bjóða tækifæri til að þroskast í leik og starfi.

Hægt að er koma með ábendingar og hugmyndir fyrir verkefnið á emailið heilsa@fjardabyggd.is

Auk þess er hægt að fylgjast með okkur á facebooksíðu verkefnisins 

P1000789.jpg

Myndin er tekin við undirskriftina 8. mars