mobile navigation trigger mobile search trigger

STJÓRNKERFIÐ

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar fer með æðstu stjórn sveitarfélagsins. Hún er kosin af íbúum Fjarðabyggðar í almennum kosningum til sveitarstjórna og er lögum samkvæmt fjölskipað stjórnvald. Bindandi ákvarðanir fyrir sveitarfélagið verða því einungis teknar á bæjarstjórnarfundum. Bæjarstjórn er þó heimilt að framselja vald sitt til nefnda og ráða innan sveitarfélagsins, þó ekki ákvarðanatökuvald sem varðar verulega fjárhagslega hagsmuni sveitarfélagsins. Forseti bæjarstjórnar er oddviti hennar. Kosið er til embættisins á fyrsta fundi að kosningum loknum og stýrir hann eftir það fundum bæjarstjórnar. Fundir bæjarstjórnar eru opnir og þeim er auk þess sjónvarpað beint á vef Fjarðabyggðar.

Bæjarráð er skipað þremur bæjarfulltrúum. Það fer ásamt bæjarstjóra með daglegan rekstur sveitarfélagsins á milli bæjarstjórnarfunda. Bæjarstjóri er framkvæmdastjóri sveitarfélagsins og yfirmaður starfsliðs stjórnsýslunnar. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið fer með málefni sveitarfélaga. Ráðherra sveitarstjórnarmála skal gæta að og virða sjálfstjórn sveitarfélaga, verkefni þeirra og fjárhag.

Fjármálastjóri

Fjármálastjóri ber ábyrgð á rekstri fjármálasviðs og þjónustu þess gagnvart íbúum, stjórnendum og starfsmönnum og kjörnum fulltrúm Fjarðabyggðar.  Hann stýrir gerð fjárhags- og starfsáætlana og vinnslu og gerð ársreiknings Fjarðabyggðar og stofnana. 

Hann ber ábyrgð á undirbúningi að  stefnumótun í fjármálum, yfirumsjón með rekstrareftirliti og tillögum til að auka hagkvæmni og skilvirkni í rekstri.  Hann ber ábyrgð á innkaupamálum, samræmingu þeirra og eftirfylgni auk þess að bera ábyrgð á fjárreiðum Fjarðabyggðar og álagningu og innheimtu allra gjalda.

Bæjarritari

Bæjarritari ber ábyrgð á stjórnsýslu, þróunarstarfi og nýsköpun í stjórnsýslu Fjarðabyggðar mannauðsmálum og undirbúningi stefnumótunar og upplýsingagjöf til starfsmanna og stjórnenda vegna launa- og starfsmannamála, samninga og verklagsreglna.  Þá ber bæjarritari ábyrgð á þjónustu bæjarskrifstofanna gagnvart íbúum, stjórnendum bæjarfélagsins og kjörnum fulltrúum. Hann hefur umsjón með launamálum og launavinnslu, manauðsstefnu og starfsmannahaldi bæjarins, samskiptum vegna kjarasamninga og túlkun á þeim og stefnumörkun og eftirliti í starfsþróunar og símenntunarmálum. 

Þá hefur hann yfirumsjón með rekstri upplýsingakerfa bæjarins og miðlun almennra upplýsinga innan og utan sveitarfélagsins.  Bæjarritari ber ábyrgð á þjónustu og ráðgjöf við bæjarstjórn og bæjarráð. Hann ber ásamt bæjarstjóra og forseta bæjarstjórnar ábyrgð á að mál séu vel undirbúin fyrir bæjarstjórnarfundi og gögn aðgengileg og greinargóð.  Sama á við um undirbúning mála fyrir bæjarráðsfundi með formanni bæjarráðs og bæjarstjóra. Þá ber hann ábyrgð á eftirfylgni mála sem afgreidd eru í bæjarráði, bæjarstjórn og menningar- og nýsköpunarnefndar. Bæjarritari er staðgengill bæjarstjóra og hefur yfirumsjón með ferða- upplýsinga- og menningarmálum sveitarfélagsins í nánu samráði og samstarfi við bæjarstjóra.

Sviðsstjóri fjölskyldusviðs

Sviðsstjóri fjölskyldusviðs er yfirmaður sviðsins og hefur með höndum stefnumótun í þeim málaflokkum sem heyra undir sviðið, stýrir rekstri þeirra með áherslu á forystu í málefnum fjölskyldunnar á víðtækum grunni. Hann hefur frumkvæðishlutverk og ábyrgð á stefnumörkun, þekkingaröflun, þekkingarmiðlun, þróunarstarfi og greiningu upplýsinga varðandi viðfangsefni fjölskyldusviðs. Sviðstjóri mótar starfsemi sviðsins og framtíðarsýn þess í samræmi við áherslur bæjaryfirvalda. Sviðstjóri fjölskyldusvið hefur yfirstjórn þeirra málaflokka sem falla undir starfið m.a. barnarverndarmála, félagsmála, fræðslumála og íþrótta- og tómstundamála.

Hann ber ábyrgð á samræmingu og samhæfingu félagsþjónustu, skóla- og íþróttastarfsemi, þróun öflugs stjórnendateymis innan sviðsins og þróun markmiða, mælikvarða og verkferla sem styðja við sýn og stefnu sveitarfélagsins.  Hann ber ábyrgð á að byggja upp heildstæða samhæfða þjónustu við fjölskyldur og að auka samstarf og samþættingu starfsemi sviðsins þvert á málaflokka. Sviðstjóri ber ábyrgð á undirbúningur mála fyrir nefndir málaflokka með skriflegum tillögum og greinargóðum gögnum og situr fundi nefnda sveitarfélagsins vegna málaflokka sem falla undir starf hans.

Sviðsstjóri framkvæmda- og umhverfissviðs

Sviðsstjóri framkvæmda- og umhverfissviðs hefur með höndum undirbúning stefnumótunar í þeim málaflokkum sem heyra undir sviðið, stýrir rekstri starfseminnar og hefur forystu á sviði framkvæmda og viðhalds innan bæjarins og við hafnir, hvort sem um er að ræða starfsemi á eigin vegum eða á grunni útboða eða þjónustusamninga við birgja. Þá er það hlutverk sviðsstjóra að þróa og útfæra leiðir til þess að hámarka þjónustu við notendur þjónustunnar sem eru ýmist íbúar Fjarðabyggðar eða notendur hafna.

Sviðsstjóri leiðir vinnu við undirbúning útboða á sviði verklegra framkvæmda bæði á sviði framkvæmda bæjarins, veitna og við hafnir og tryggir þannig að kaupkraftur Fjarðabyggðar nýtist til fullnustu báðum sviðum bæjarins. Gert er ráð fyrir því að ýmist bjóði bærinn, veitur eða hafnirnar út einstaka flokka verka en þá fyrir hönd beggja og þannig verði tryggt að umfang viðskiptanna leiði fram rétt verð bæði fyrir A-hluta sveitarfélagsins og hafnarsjóð.

Sviðsstjóri samræmir þá áætlunargerð sem fram fer á vegum sviðsins, býður út verkefni og samræmir þau á grunni innkaupareglna sveitarfélagsins. Þá skal hann halda verkefnaskrá yfir framkvæmdir og stöðu viðhaldsmála sveitarfélagsins, veitna og Fjarðabyggðarhafna.

Sviðsstjóri hefur með höndum undirbúning stefnumótunar í þeim málaflokkum sem heyra undir sviðið, stýrir rekstri þeirra með áherslu á faglega forystu á sviðum umhverfis-, skipulags- og byggingarmála. Hann hefur frumkvæðishlutverk í stefnumörkun, þekkingaröflun, þekkingarmiðlun, þróunarstarfi og greiningu upplýsinga varðandi málasvið og verkefni sem falin eru sviðinu. 

Þá ber hann ábyrgð á undirbúningi stefnumótunar í framkvæmdum, gæðakröfum í byggingu fasteigna og viðhaldi þeirra og samskiptum við leigutaka sem nýta mannvirki bæjarins. Umhverfismál, þ.m.t. torg, opin svæði og bæjargarðar eru í umsýslu hans.

Hann ber ábyrgð á söfnun og meðferð úrgangs og verkefnisstjórn vinnuskóla. Hann hefur yfirumsjón með málefnum eignasjóðs, þjónustumiðstöð og tækjamiðstöð og umferðar- og umferðaröryggismálum.

Hann ber ábyrgð á nýbyggingarverkefnum og hönnunar- og byggingarstjórn og vinnur með eigna-, skipulags og umhverfisnefnd tillögu til bæjarráðs um forgangsröðun nýframkvæmda og viðhaldsáætlanir fasteigna bæjarins.

Hann ber ábyrgð á þjónustu og faglegum stuðning við eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd og skal gæta þess að mál sem lögð eru fyrir nefndina séu vel undirbúin og greinargóð.  Hann skal jafnframt sjá til þess að ákvörðunum nefndarinnar sé fylgt eftir og hrundið í framkvæmd.  

Sviðstjóri ber skyldur og ábyrgð skipulags- og byggingafulltrúa samkvæmt skipulagslögum, skipulagsreglugerð, mannvirkjalögum, byggingareglugerð og reglum og samþykktum Fjarðabyggðar.