mobile navigation trigger mobile search trigger

Atvinnulíf

Atvinnulíf stendur styrkum fótum í Fjarðabyggð. Fjarðabyggðarhafnir eru næst stærsti hafnarsjóður landsins, næst á eftir Faxaflóahöfnum og hjá höfnunum skapast um fjórðungur af útflutningstekjum Íslendinga. Útgerð, álframleiðsla og margvísleg þjónustustarfsemi myndar megingrunninn í efnahag sveitarfélagsins og eru atvinnutekjur á íbúa með þeim hæstu hér á landi. Samfara uppbyggingu atvinnulífs hefur markvisst verið unnið að því að styrkja innviði sveitarfélagsins. Fjórðungssjúkrahús landshlutans er starfrækt í Neskaupstað ásamt Heilbrigðisstofnun Austurlands og heilsugæsla er staðsett í hverjum bæjarkjarna. Þá er Slökkvilið Fjarðabyggðar eitt fárra atvinnuslökkviliða utan höfuðborgarsvæðisins.

Atvinnuþróun og frekari atvinnusköpun er á meðal meginverkefna Fjarðabyggðar. Þetta á við um öll helstu svið atvinnulífsins hvort heldur litið er til hefðbundinna atvinnugreina í dreifbýli, ferðaþjónustu, skapandi greina í menningu og listum, lífrænt vottaðra framleiðslugreina eða nýsköpun á sviði líftækni svo dæmi séu tekin. Leitast er við að veita frumkvöðlum og nýjum fyrirtækjum góða og skjótvirka þjónustu. Þá er ekki síður lögð áhersla á að auðvelda einstaklingum, jafnt sem fjölskyldum, að setjast að í sveitarfélaginu og laga sig að nýjum aðstæðum. Meginmarkmið Fjarðabyggðar sem sveitarfélags, eins og það endurspeglast í einkunnarorðum þess, á líklega hvergi betur við en hér - þú ert á góðum stað.