mobile navigation trigger mobile search trigger

Félagsleg úrræði og ráðgjöf

Félagsleg ráðgjöf:

Félagsleg ráðgjöf hefur það markmið að hjálpa fólki til sjálfshjálpar með fjölbreyttum leiðum þannig að það geti sem best notið sín í samfélaginu.

Hægt er að bóka símtal við ráðgjafa sem veitir félagslega ráðgjöf, leiðbeinir varðandi umsóknir um þjónustu sem hentar þörfum hvers og eins og aðstoðar við gerð þeirra ef þörf er á.

Samvinna eftir skilnað:

Fjölskyldusvið Fjarðabyggðar býður upp á ráðgjöf og stuðning við foreldra sem eru að hugsa um að skilja, eru í skilnaðarferli eða hafa skilið fyrir einhverju síðan og vilja bæta samvinnu sín á milli. Um er að ræða ráðgjöf til að koma í veg fyrir og/eða til að draga úr ágreiningi foreldra sem standa í skilnaði eða hafa gengið í gegnum skilnað og vilja stuðla að betri foreldrasamvinnu með hagsmuni barns að leiðarljósi.

Sjá nánar hér: https://samvinnaeftirskilnad.is/

Fjárhagsaðstoð:

Fjárhagsaðstoð er veitt vegna framfærslu einstaklinga og fjölskyldna. Rétt á fjárhagsaðstoð eiga þeir sem eiga lögheimili í Fjarðabyggð, hafa tekjur undir tekju- og eignamörkum og geta ekki séð sér og sínum farborða með öðrum hætti.

Heimilt er að veita einstaklingum og fjölskyldum aðstoð vegna sérstakra aðstæðna, m.a. vegna nauðsynlegra tannlækninga og ábyrgð á greiðslu tryggingar vegna leiguhúsnæðis.

Markmiðið er að hjálpa einstaklingum og fjölskyldum til sjálfshjálpar. Þess vegna er fjárhagsaðstoð einungis veitt í tengslum við félagslega ráðgjöf og önnur úrræði eftir því sem við á hverju sinni, t.d. virka atvinnuleit, endurhæfingu eða meðferð. Stundum er samstarf við Umboðsmann skuldara og eða við þjónustufulltrúa bankanna varðandi ráðgjöf og stuðning.

Til að hægt sé að afgreiða umsóknir þarf að skila inn þeim fylgigögnum sem tiltekin eru á umsóknareyðublaðinu og öðrum þeim gögnum sem starfsmenn óska eftir til að geta lagt mat á aðstæður.

Fjárhagsaðstoð sem veitt er á grundvelli ófullnægjandi, rangra eða villandi upplýsinga er alltaf endurkræf. Sá sem nýtur fjárhagsaðstoðar skal tilkynna ef breytingar verða á tekjum og fjölskylduaðstæðum.

Sótt er um fjárhagsaðstoð hér: https://island.is/umsokn-um-fjarhagsadstod

Sótt er um sértæka fjárhagsaðstoð í gegnum íbúagátt á heimasíðu Fjarðabyggðar

Félagslegt leiguhúsnæði:

Félagslegt leiguhúsnæði er einkum ætlað fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem af félagslegum ástæðum geta ekki séð sér fyrir húsnæði á almennum markaði. Forgangsröðun og úthlutun íbúða fer fram á grundvelli stigagjafar skv. matsviðmiðum sem sjá má í reglum Fjarðabyggðar um félagslegt leiguhúsnæði. Umsóknir eru flokkaðar eftir aldri, fjölskyldustærð, húsnæðisaðstæðum og félagslegum aðstæðum. Til þess að viðhalda gildi umsóknar þarf umsækjandi að endurnýja umsóknina í ágúst ár hvert.

Húsnæðisbætur:

Húsnæðisbætur eru mánaðarlegar greiðslur ætlaðar til þess að aðstoða fólk sem leigir íbúðarhúsnæði. Húsnæðisbætur tóku við af eldra bótakerfi sem var kallað húsaleigubætur. Upphæð húsnæðisbóta fer eftir fjölda fólk á heimili, tekjum þess, eignum og leiguverði.

Sótt er um húsnæðisbætur á heimasíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofunar, sjá hér: https://hms.is/husnaedi/husnaedisbaetur

Sérstakur húsnæðisstuðningur:

Sérstakur húsnæðisstuðningur er fjárhagsleg aðstoð við fjölskyldur og einstaklinga á leigumarkaði sem þurfa sérstakan stuðning vegna greiðslu á húsaleigu umfram hefðbundnar húsnæðisbætur.

Sótt er um sérstakan húsnæðisstuðning á íbúagátt sveitarfélagsins á fjardabyggd.is

Einnig er hægt að sækja um sérstakan húsnæðisstuðning til foreldra eða forsjáraðila 15-17 ára barna sem leigja herbergi á heimavist eða námsgörðum hér á landi vegna náms fjarri lögheimili. Sótt er um sérstakan húsnæðisstuðning vegna 15-17 ára á íbúagátt sveitarfélagsins á fjardabyggd.is

Nánari upplýsingar um húsnæðisbætur eru á heimasíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á www.hms.is