mobile navigation trigger mobile search trigger

UMHVERFI OG SAMGÖNGUR

Stefna Fjarðabyggðar í umhverfismálum byggir á grunni sjálfbærrar þróunar, eins og hún er sett fram í stefnu stjórnvalda um Velferð til framtíðar. Umhverfisviðmiðin sem sveitarfélagið starfar eftir  skiptast í fjóra meginflokka. Þeir eru; heilnæmt og öruggt umhverfi, verndun náttúru Íslands, sjálfbær nýting auðlinda og hnattræn viðfangsefni. Litið er svo á að heilnæmt umhverfi og sátt sambúð manns og náttúru varði velferð Fjarðabyggðar og framtíðarhag.

Í framkvæmd byggja umhverfismál á samstarfi sveitarfélags og íbúa. Liður í umhverfisstefnu Fjarðabyggðar er að stuðla  að aukinni endurvinnslu á sorpi og endurvinnanlegum úrgangi.

Með bættum almenningssamgöngum hafa einnig verið tekin mikilvæg skref í átt að sjálfbærri samfélagsþróun. 

Áætlunarferðir strætisvagna tengja saman bæjarkjarna Fjarðabyggðar. Góðar almenningssamgöngur og markviss uppbygging þeirra eru forsenda þess að sveitarfélagið myndi samfellt atvinnusvæði. Þá jafna góðar almenningssamgöngur möguleika á atvinnusókn, námi og afþreyingu hjá íbúum sveitarfélagsins. Leiðarkerfið innan Fjarðabyggðar er afrakstur tilraunaverkefnis sem stóð með góðum árangri yfir í nokkur ár. Fjarðabyggð er aðili að Strætisvögnum Austurlands (SVAust) sem tengir leiðarkerfi sveitarfélagsins við önnur sveitarfélög nær og fjær. Þá eru áætlunarferðir flugrútunnar á milli Egilsstaðaflugvallar og bæjarkjarna hluti af leiðarkerfinu.

Fjarðakortið er handhægt áfyllingarkort sem gengur bæði í strætó og sundlaugar Fjarðabyggðar, en auk þess má greiða fyrir stakar ferðir eða kaupa strætókort.