mobile navigation trigger mobile search trigger

Saga Fjarðabyggðar

Á því svæði sem nú myndar Fjarðabyggð voru níu sveitarfélög árið 1987. Fyrr á öldum voru þau aðeins fimm, en þegar þéttbýli fór að myndast við ströndina, með aukinni útgerð um og uppúr aldamótunum 1900 og sérstaklega með tilkomu vélbáta skömmu síðar, urðu til sérstök sveitarfélög utan um þau flest, nánast landlaus, og líklega að kröfu betri bænda í eldri sveitarfélögunum.

Þannig var, sem dæmi Reyðarfjarðarhreppi hinum forna skipt upp í þrjá hreppa, Helgustaðahrepp, Eskifjarðarhrepp og Reyðarfjarðarhrepp árið 1907. Undir loka 20. aldar snérist þessi þróun hins vegar við, þá lögðu menn allt kapp á að sameina sveitarfélög á svæðinu og reyna þannig að efla þau.

Á Fáskrúðsfirði höfðu Frakkar eina af bækistöðvum sínum vegna fiskveiða sinna um aldir. Umsvif þeirra náðu líklega hámarki um aldamótin 1900. 

Sagt er að stundum hafi yfir eitt hundrað skip legið á firðinum í einu. Frakkar reistu ýmis mannvirki á Fáskrúðsfirði sem enn standa s.s. spítala, kapellu og konsúlshús. Franskur grafreitur er rétt austan kauptúnsins.

1. júlí 1940 kom breskur her til Reyðarfjarðar, fáir í fyrstu en fjölgaði ört og er talið að erlendir hermenn hafi flestir orðið 1200-1300 í einu, í fyrstu breskir en síðar bandarískir, kanadískir og norskir. Miklar minjar eru frá dvöl hersins, mest rústir, en heillegast eru leifar af stóru hersjúkrahúsi sem sjá á á svæðini við Stríðsárasafnið á Reyðarfirði

Á síldarárunum milli 1960 og 1970 var mikill fjöldi aðkomufólks á öllum fjörðum hér eystra, en í þetta skipti brá svo við að meirihluti innrásarliðsins voru ungar konur. Í brælum fylltust svo allir firðir af bátum svo að eðli málsins samkvæmt varð ansi fjörlegt á stundum.

Fjarðabyggð verður til

Núverandi Fjarðabyggð er til orðin eftir langt sameiningarferli sem hófst árið 1988 þegar Helgustaðahreppur var lagður undir Eskifjarðarkaupstað og lauk í júní 2018.

Fyrir árið 1988 voru eftirtalin sveitarfélög á því svæði sem nú er Fjarðabyggð talið að norðan: Mjóafjarðarhreppur, Norðfjarðarhreppur, Neskaupstaður, Helgustaðahreppur, Eskifjarðarkaupstaður, Reyðarfjarðarhreppur, Fáskrúðsfjarðarhreppur, Búðahreppur, Stöðvarhreppur og Breiðdalshreppur. Árið 1998 varð fyrsta sameining sveitarfélaga á þessu svæði þegar Eskifjarðarkaupstaður, Neskaupstaður og Reyðarfjarðarhreppur sameinuðust formlega, að undangengnum íbúakosningu. Úr varð að nefna hið nýja sveitarfélag Fjarðabyggð. Fjarðabyggð varð þar með stærsta sveitarfélag á Austurlandi og voru íbúar þess um 3.300 talsins.

Árið 2006 var haldið áfram á braut sameiningar en þá sameinuðust Fjarðabyggð, Austurbyggð, Mjóafjarðarhreppur og Fáskrúðsfjarðarhreppur undir nafni Fjarðabyggðar. Nokkru áður, árið 2003, höfðu Búðahreppur og Stöðvahreppur sameinast í sveitarfélagið Austurbyggð  Það var svo að lokum í júní 2018 að Breiðdalshreppur og Fjarðabyggð sameinuðust. Að þeirri sameiningu lokinni eru íbúar Fjarðabyggðar orðnir rúmlega 5200 og sveitarfélagið eitt það víðfeðmasta á landinu.

Þéttbýliskjarnar Fjarðabyggðar

Þéttbýliskjarnar eru sjö talsins. Nyrst er Mjóifjörður en þar er eitt minnsta þorp á Íslandi. Þá kemur Norðfjörður, fjölmennasti bæjarhluti Fjarðabyggðar, því næst Eskifjörður sem stendur við samnefndan fjörð, sem gengur inn úr norðurströnd Reyðarfjarðar. Síðan koma Reyðarfjörður, Fáskrúðsfjörður og Stöðvarfjörður. Syðsti þéttbýliskjarni Fjarðabyggðar er svo Breiðdalur.

Allir þéttbýliskjarnarnir nema Eskifjörður eiga sér gömul nöfn sem ekki eru lengur notuð að neinu ráði og eftir síðustu sameiningu hefur það orðið að venju að nota nöfn fjarðanna um byggðarkjarnana. En gömlu nöfn eru þessi: Brekkuþorp í Mjóafirði, Nes í Norðfirði, Búðareyri við Reyðarfjörð, Búðir á Fáskrúðsfirði, Kirkjuból á Stöðvarfirði og Þverhamarsþorp á Breiðdalsvík.

Íbúaþróun

Íbúafjöldi á svæðinu hefur í gegnum tíðina sveiflast nokkuð, um 1990 bjuggu á svæðinu tæplega 5.000 manns. Þeim fór svo fækkandi frameftir öllum tíunda áratug 20. aldar. Eftir aldmót hefur íbúum hinsvegar farið jafnt og þétt fjölgandi og í byrjun janúar 2022 voru íbúar Fjarðabyggðar orðnir ríflega 5.200.

Fjarðabyggð - Þú ert á góðum stað!

Kjörorð Fjarðabyggðar er "Þú ert á góðum stað". Það er notað í öllu kynningarefni sveitarfélagsins og haft sem leiðarljós í allri stefnumótun. Hver bæjarkjarni á sér svo einnig sín eigin kjörorð sem eru lýsandi fyrir hvern þeirra.

Kjörorðin eru:

Mjóifjörður - Falinn fjársjóður
Norðfjörður - Þar sem lognið hlær svo dátt
Eskifjörður - Sjór og saga
Reyðarfjörður - Þar sem hjartað slær
Fáskrúðsfjörður - C'est la vie (Það er lífið)
Stöðvarfjörður - Steinaríkið Stöðvarfjörður
Breiðdalur - Brosir við þér

Bæjarstjórar Fjarðabyggðar

Guðmundur Bjarnason 
1998 - 2006

Helga Jónsdóttir
2006 - 2010

Páll Björgvin Guðmundsson
2010 - 2018

Karl Óttar Pétursson
2018 - 2020

Jón Björn Hákonarson
2020 - 2023

Jóna Árný Þórðardóttir
2023 - 

Atvinna

Sjávarútvegur, fiskvinnsla og stóriðja er aðalatvinnuvegur í Fjarðabyggð og þar eru þrjú af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins, Síldarvinnslan h/f , Eskja h/f.og Loðnuvinnslan h/f auk álvers Alcoa-Fjarðaáls. Nokkur landbúnaður er í sveitarfélaginu, einkum í Breiðdal, Norðfjarðarsveit og Fáskrúðsfirði.

Framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins hafa í gegnum tíðina einnig verið miklar. Í kringum byggingu álvers Alcoa á fyrsta áratug 21. aldar var hún mikil, enda stækkaði Fjarðabyggð hratt á þeim tíma. En uppbyggingin hefur haldið áfram jafnt og þétt síðan þá. Skólastofnanir hafa mikið verið endurnýjaðar og nýjasta viðbótin þar er stækkun Leikskólans Lyngholt sem tekin var formlega í notkun árið 2020. Á næstu árum eru síðan ennfrekari framkvæmdir fyrirhugaðar, s.s. nýtt íþróttahús á Reyðarfirði og stækkun Leikskólans Dalborgar á Eskifirði.

Fjarðabyggðarhafnir eru í flokki öflugustu hafna á landinu enda kemur óvíða meiri fiskafli á land en í Fjarðabyggð. Fjarðabyggðarhafnir eru næststærsta höfn landsins, með tæplega þriðjung af öllum vöruútflutningi landsmanna og sú stærsta ef eingöngu er litið til útflutnings ál- og fiskafurða.

Ýmsum atvinnugreinum hefur vaxið fiskur um hrygg í Fjarðabyggð á undaförnum árum. Má þar nefna að mikil uppbygging hefur átt sér stað á í laxeldi í fjörðum Fjarðabyggðar, og fjölmörg störf hafa orðið til í kringum þann iðnað. Í Neskaupstað var tekið í gagnið í árslok 2020 Samvinnuhúsið Múlinn sem er  skrifstofu- og nýsköpunarklasi, þar sem hinum ýmsu fyrirtækjum og einstaklingum gefst tækifæri til að leigja skrifstofuhúsnæði.

Þjónusta

Í Fjarðabyggð er öflug og fjölbreytt þjónusta. Meðal þjónustustofnana má nefna Fjórðungssjúkrahús Austurlands, Verkmenntaskóla Austurlands, útibú Vegagerðar ríkisins, Lögreglustjórann á Austurlandi, Skólaskrifstofu Austurlands, Náttúrustofu Austurlands, Heilbrigðiseftirlit Austurlands og útibú Matís sem staðsett er á Norðfirði, rannsóknarsetur Háskóla Íslands í Breiðdal. Rannsóknasetrinu er einkum ætlað að sinna rannsóknum á sviði jarðfræði og málvísinda. 

Öflugir grunnskólar, tónlistarskólar, leikskólar og æskulýðsmiðstöðvar eru einnig starfræktar í byggðakjörnum Fjarðabyggðar og þar fer fram öflugt og faglegt starf. Þjónustugjöld skólakerfisins eru með þeim lægstu á landinu, og frá og með haustinu 2021 er Fjarðabyggð afar stolt af því að bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í skólum sínum. 

Samhliða þessu er menningar- og félagslíf í miklum blóma ásamt kröftugu íþrótta- og æskulýðsstarfi sem haldið er uppi af öflugum ungmennafélagum í hverjum byggðakjarna. Fjarðabyggð býr vel að öflugum innviðum þegar kemur að íþróttastarfi. Þegar nýtt íþróttahús verður risið á Reyðarfirði 2021 verða þrír innanhús íþróttavellir í fullri stærð í sveitarfélaginu, auk nokkura minni sala. Einnig er á Reyðarfirði fjölnota íþróttahús, Fjarðabyggðarhöllinn, sem nýtist vel til knattpsyrnuiðkunar ásamt gervigrasvelli utanhús í Neskaupstað og góðum grasvelli á Eskifirði.

Verslun dafnar vel svo og rekstur hótela, gistihúsa og veitingahúsa. Dagvöru- og lágverðsverslanir, handverksbakari, bankar, lyfjaverslanir og sérverslanir ýmiss konar eru í Fjarðabyggð, svo að nokkur dæmi séu nefnd ásamt fjölda aðila í iðntengdum þjónustugreinum. Nokkur landbúnaður er í sveitarfélaginu, einkum í Breiðdal, Norðfjarðarsveit og Fáskrúðsfirði. 

Náttúra

Í Fjarðabyggð eru tveir friðlýstir fólkvangar. Fólkvangurinn í Neskaupstað, við rætur Nípunnar, var fyrsti friðlýsti fólkvangur landsins og tók friðlýsingin gildi árið 1972. Hólmanes, milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar, er friðlýst sem fólkvangur og að hluta sem friðland. Í fólkvöngunum er mikil náttúrufegurð sem og í sveitarfélaginu öllu og Gerpissvæðið milli Norðfjarðar og Reyðarfjarðar er að verða eitt af vinsælustu gönguleiðarsvæðum landsins og hafa félagar í Ferðafélagi Fjarðamanna stikað þar fjölmargar gönguleiðir, eins og víða annars staðar í sveitarfélaginu, og gert það þannig aðgengilegt ferðamönnum.

Í nágrenni bæjarins Helgustaða við norðanverðan Reyðarfjörð eru einhverjar kunnustu silfurbergsnámur í heimi. Þar var silfurberg grafið úr jörðu frá því á 17. öld og fram á fyrri hluta 20. aldar.

Helgustaðanáman er nú friðlýst sem náttúruvætti og eru nú uppi áætlanir af hálfu sveitarfélagsins og Náttúrustofu Austurlands um að opna hana að nýju svo hægt sé að njóta þessa sérstæða náttúrufyrirbæris.

Ein af perlum Fjarðabyggðar er skíðasvæðið á Oddsskarði en þar eru tvær lyftur hvor upp af annarri samtals um 1200 m. langar. Neðri lyftan hefst í 513 metra hæð og þegar komið er upp á topp, í 840 metra hæð yfir sjávarmáli, blasir við ægifagurt útsýni yfir Reyðarfjörð og norður í Norðfjörð. Einnig er á svæðinu barnalyfta og glæsilegur skíðaskáli með veitingaaðstöðu.

Aðra perlu má svo finna rétt innan við þorpið í Breiðdal. Þar er Meleyri, 3 km löng strönd, þar sem hægt er að njóta nálægðar við hafið og náttúruna.