mobile navigation trigger mobile search trigger

Gæludýrahald

Hundar, kettir og fiðurfénaður er skráningarskylt gæludýrahald innan þéttbýlismarka í Fjarðabyggð. Skrá þarf dýr innan mánaðar eftir að þau koma inn á heimilið, ungviði þarf að skrá frá 3ja mánaða aldri. Afskráningu skal tilkynna innan mánaðar frá því dýrið flytur eða deyr.

Greitt er leyfisgjald fyrir hunda og ketti skv. gjaldskrá, en árlegt leyfisgjald er sent út í greiðsluseðli undir lok hvers árs.

Innifalið í leyfisgjaldinu er ormahreinsun sem og almenn umsýsla s.s. þjónusta og samskipti við gæludýraeigendur, aðstoð í tengslum við týnd dýr, viðhald hundasvæða o.fl. Boðun í ormahreinsun er send árlega, á haustin. Skylt er skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir að mæta með hunda og ketti í hreinsunina og/eða framvísa vottorði um hreinsun innan þess tíma sem árleg hreinsun hunda og katta fer fram að hausti, tímabilinu september til október ár hvert

Ábendingar og kvartanir vegna gæludýrahalds s.s. vegna ónæðis skal sent til dýraeftirlits Fjarðabyggðar, dyraeftirlit@fjardabyggd.is eða í síma 470 9000 / 834 0824.

Dýr í neyð, slösuð eða hjálparlaus dýra

Búfé eða gæludýr

Ef vart verður við dýr í neyð s.s. sært, veikt, í sjálfheldu eða það bjargarlaust ber að veita því umönnun eftir föngum. Sé umráðamaður ekki til staðar eða óvíst hver hann er skal tilkynna atvikið til lögreglu. Það er hjá lögreglu að kalla til dýralækni meti hún ástæðu til þess. Það er þó hjá umráðamanni dýrsins að bera kostnað sem fellur til.

Hvalreki

Tilkynna skal hvalreka til lögreglu með því að hringja í 112.

Villt eða hálfvillt dýr

Sveitarfélaginu er skylt að sjá til þess að koma til aðstoðar dýrum sem eru villt eða hálfvillt (hálfvillt dýr eru m.a. ómerkt gæludýr eða búfénaður). Tilkynna skal til sveitarfélagsins ef vart er við að villt eða hálfvillt dýr eru hjálparþurfi.

Ef ekki næst í sveitarfélagið skal tilkynna málið til lögreglu sem, eftir aðstæðum, kallar til eða fer með dýrið til dýralæknis. Lögreglan tilkynnir atvikið svo til sveitarfélagsins. Sveitarfélagið ber allan kostnað sem stofnað er til ef dýrið er villt eða hálfvillt.

Til upplýsingar þá er skylt skv. lögum um velferð dýra að örmerkja hunda, ketti og kanínur. Séu þau ekki örmerkt eru þau skilgreind sem hálfvillt dýr. Grunnupplýsingar um eiganda dýrsins er svo skráð inn í gagnagrunn sem kallast Dýraauðkenni sá gagnagrunnur tengist EKKI skráningarkerfi sveitarfélagsins.

Umsóknarferli

  • Umsóknareyðublöð er hægt að nálgast og skila útfylltum á Íbúagátt Fjarðabyggðar.
  • Þegar sótt hefur verið um leyfi og það samþykkt, er númer sent til eiganda dýrsins ásamt afriti af afgreiddu umsóknarblaði og samþykktum Fjarðabyggðar um hunda- og kattahald.
  • Hunda- og kattaleyfisgjald er greitt afturvirkt þ.e. fyrir árið sem er liðið, og er leyfisgjaldið miðað við ormahreinsunartímabilið, sept./okt.

Á heimasíðu Matvælastofnunar má finna flest er tengist dýrum og dýrahaldi en hlutverk stofnunarinnar fer með löggjöf og eftirlit er varðar heilbrigði og velferð dýra, linkur inn á heimasíðuna er: https://www.mast.is/is