mobile navigation trigger mobile search trigger
15.05.2020

Fyrirlestraröð Menningarstofu Fjarðabyggðar

Menningarstofa Fjarðabyggðar mun í sumar að bjóða upp á fyrirlestraröð listafólks og fræðimanna sem dvelja í Jensenshúsi. Fyrirlestrarnir verða haldnir í Tónlistarmiðstöð Austurlands þar sem dvalargestir kynna verkefni sín. Miðvikudaginn 20. maí kl. 20:00 fer fyrsti fyrirlesturinn fram þegar Þórlindur Kjartansson ræðir um nýsköpun.

Fyrirlestraröð Menningarstofu Fjarðabyggðar

Menningarstofa Fjarðabyggðar mun í sumar að bjóða upp á fyrirlestraröð listafólks og fræðimanna sem dvelja í Jensenshúsi. Fyrirlestrarnir verða haldnir í Tónlistarmiðstöð Austurlands þar sem dvalargestir kynna verkefni sín. Búast má við fjölbreyttri dagskrá þar sem meðal annars verður rætt um nýsköpun, sagnfræði, listir og menningu. Jensenshús á Eskifirði stendur lista- og fræðimönnum til boða allt árið um kring en gert er ráð fyrir því að gestir hússins komi list sinni eða þeim verkefnum sem þeir eru að vinna að á framfæri í Fjarðabyggð með einhverjum hætti sem hentar hverju sinni.

Þórlindur Kjartansson ríður á vaðið miðvikudaginn 20. maí og fjallar um nýsköpun. Þórlindur er hagfræðingur og lögfræðingur að mennt og hefur meðal annars starfað sem blaðamaður, yfirmaður alþjóðlegra markaðsmála Landsbankans, rekstrarstjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Meniga og gegnt ýmsum öðrum stjórnunar- og ábyrgðarstörfum. Hann er einnig reglulegur pistlahöfundur í Fréttablaðinu.

Þórlindur þekkir vel til umræðunnar um nýsköpun en hann var formaður verkefnastjórnar sem mótaði heildstæða nýsköpunarstefnu sem ríkisstjórn Íslands gerði að sinni sl. haust. Þórlindur er einnig annar höfundur ritsins „Bak við ystu sjónarrönd“ þar sem sjónum er beint að bláa hagkerfinu og framþróun í sjávarútvegi. Þórlindur mun í fyrirlestri sínum fjalla um nýsköpun á breiðum grunni og þau skilyrði sem nauðsynleg eru fyrir frumkvöðla og fjárfesta til að vinna að verkefnum sínum, skapa verðmæti og efla þannig samfélagið í heild sinni. Hann mun einnig tala um tækifæri Íslands og einkum landsbyggðarinnar í þessum efnum. Þórlindur á ættir að rekja til Eskifjarðar, þar sem móðir hans ólst upp, en sjálfur fæddist hann í Vestmannaeyjum.

Fyrirlesturinn er haldinn í Tónlistarmiðstöð Austurlands miðvikudaginn 20. maí klukkan 20.00 og boðið verður upp á spurningar á eftir. Heitt á könnunni.

Fleiri myndir:
Fyrirlestraröð Menningarstofu Fjarðabyggðar
Þórlindur Kjartansson