mobile navigation trigger mobile search trigger
12.10.2018

Menningarmót í Grunnskóla Reyðarfjarðar

Í síðustu viku voru haldnir þemadagar í Grunnskóla Reyðarfjarðar. Í þeimaviku að þessu sinni var unnið að fjölbreyttum verkefnum tengdum menningu hina ýmsu þjóðlanda. Á fimmtudag var síðan haldið menningarmót.

Menningarmót í Grunnskóla Reyðarfjarðar

Áherslan var lögð á menningu hvers og eins, gildi, áherslur, væntingar og áhugamál. Talin voru saman þau tungumál sem nemendur skólans tala og sjónum beint að þeim fjársjóð sem felst í öllum þessum tungumálum en í Grunnskóla Reyðarfjarðar eru töluð alls 12 tungumál.

Seinni partinn á fimmtudag var svo forráðamönnum boðið í heimsókn. Byrjað var á sal þar sem gestir voru boðnir velkomnir. Síðan ávarpaði Kristín Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri fjölmenningar, samkomuna en hún er höfundur verkefnisins (sjá á menningarmot.is) Kristín fékk nemendur í 1. - 4. bekk til liðs við sig að opna menningarmótið sem þau gerðu með dans og söng þar sem þau buðu gesti velkomna á nokkrum tungumálum. Síðan rak hvert skemmtiatriðið annað. Söngur á þremur tungumálum, píanóleikur, karate og ljóðalestur. Eftir samveru á sal var gestum boðið að ganga um skólann og heimsækja nemendur og fræðast um menningu hvers og eins. 

Þessi samvera var ánægjulegur endir á frábærri viku. Við erum einstök, hvert og eitt okkar, en eigum um leið svo margt sameiginlegt, hvaðan sem við komum. Uppruni okkar getur verið íslenskur, pólskur, íraskur, bosnískur, filippseyskur, kanadískur, þýskur, norskur, bandarískur, portúgalskur og spænskur en öll erum við Reyðfirðingar því við kjósum að búa hér, Íslendingar og ekki má gleyma jarðarbúar. Og margt af því sem fær okkur til að líða vel eigum við sameiginlegt með einhverjum öðrum.