mobile navigation trigger mobile search trigger
01.02.2019

Nýjar notkunarreglur um snjalltæki í grunnskólum Fjarðabyggðar taka gildi

Þann 1. febrúar taka gildi nýjar reglur um notkun snjalltækja í grunnskólum Fjarðabyggðar. Reglurnar miða að því að hlífa börnum við þeim vandamálum sem fylgja aukinni notkun slíkra tækja.

Nýjar notkunarreglur um snjalltæki í grunnskólum Fjarðabyggðar taka gildi
Nýjar reglur um notkun snjalltækja í grunnskólum Fjarðabyggðar taka gildi í dag.

Rannsóknir benda til þess að óhófleg notkun snjalltækja og samfélagsmiðla hafi neikvæð áhrif á námsárangur, einbeitingu, tilfinningalíf, svefn og andlega heilsu fólks.

Reglurnar hafa verið í vinnslu hjá fjölskyldusviði Fjarðabyggðar frá því í haust og voru nýlega samþykktar í bæjarstjórn og bæjarráði. Reglurnar fela í sér að nemendur í grunnskólum Fjarðabyggðar noti ekki eigin snjalltæki, snjallsíma eða snjallúr á skólatíma, hvorki í skólanum né á skólalóð. Mælst er til þess að nemendur geymi snjalltæki heima en taki nemendur þau með í skólann skal vera slökkt á þeim.

Reglurnar og markmið þeirra hafa undanfarið verið kynnt fyrir starfsmönnum, nemendum og foreldrum og forráðamönnum barna í Fjarðabyggð og hefur kynning gengið vel. Með nýjum reglum er vonast  til að jafnræði meðal nemenda aukist, nemendur nái enn betri einbeitingu og árangri í námi og félagsleg samskipti eflist.

Sjalltækjavæðing skólanna

Í kjölfar þessara breytinga hefur tækjakostur grunnskólanna verið stórbættur. Keypt hafa verið rúmlega 500 tæki, spjaldtölvur og chromebook tölvur, en auk þess verður farið í að efla nettengingar í skólunum á næstu vikum. Þessum aðgerðum er ætlað að styðja við þróun kennsluhátta og auka fjölbreytni í námi nemenda í takt við nýja tíma.