Míla, í samstarfi við Fjarðabyggð, hefur á síðustu mánuðum unnið að lagningu ljósleiðara í Fjarðabyggð. Fyrsti áfangi er unninn á þessu ári og miðar að því að tengja öll fyrirtæki og heimili á Breiðdalsvík, Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði og í Neskaupstað við ljósleiðarakerfi Mílu. Verkið hefur unnist hraðar en áætlanir gerðu ráð fyrir og hefur samvinna við íbúa verið til fyrirmyndar. Verktakar Mílu, VVverk og Rafey, hafa staðið sig með prýði.
27.06.2025
Skotgengur að ljósleiðaravæða í Fjarðabyggð

Nú eru öll heimili á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði að fullu tengd. Í Neskaupstað eru jarðvegsframkvæmdum nánast lokið og unnið verður að tengingu heimila og fyrirtækja í sumar og fram á haust. Þá ættu flestir Norðfirðingar að vera komnir með aðgang að ljósleiðara og þeir síðustu tengdir í haust. Á Fáskrúðsfirði er unnið jöfnum höndum að jarðvegsframkvæmdum og tengingum og gert ráð fyrir að verkefninu verði lokið í haust.
Hönnun ljósleiðaralagningar fyrir Reyðarfjörð og Eskifjörð er í undirbúningi og gert ráð fyrir að hönnun ljúki fyrir áramót og framkvæmdir hefjist næsta vor.