mobile navigation trigger mobile search trigger
12.10.2017

Umhverfisverðlaun Fjarðabyggðar 2017 afhent

Umhverfisverðlaun Fjarðabyggðar voru veitt í annað sinn á Stríðsárasafninu á Reyðarfirði í dag. Viðurkenningar voru veittar í þremur flokkum; fyrir snyrtilegustu lóð við íbúðarhús, snyrtilegasta umhverfi íbúðarhúss í dreifðri byggð og snyrtilegustu fyrirtækjalóð. Óskað var eftir tilnefningum frá íbúum í Fjarðabyggð og bárust alls 11 tilnefningar á öllum flokkum.

Umhverfisverðlaun Fjarðabyggðar 2017 afhent

Tilnefningarnar fóru svo til dómnefndar sem vann úr þeim, fór og skoðaði alla þá garða og lóðir sem tilnefndar voru og gaf álit sitt. Dómnefndina skipuðu Dagbjört Óskarsdóttir, garðyrkjufræðingur og blómaskreytir Reykjavík og Helga Björk Einarsdóttir, garðyrkjufræðingur og starfsmaður Fjarðabyggðar

Viðurkenningu fyrir snyrtilegustu lóð í þéttbýli hlutu íbúarnir í Hæðargerði 23 á Reyðarfirði, þau Jóna Margeirsdóttir og Ari Bergsveinn Guðmundsson. Í umsögn dómnefndar segir: „Lóðin er afar snyrtileg og stílhrein, hellulögn og garður mynda fallega heild. Garðurinn er vel snyrtur og plöntuvalið er til fyrirmyndar með tilliti til árstíða og vaxtarlags. Garðurinn er afar fagmannlega unninn og er með fallegan og heildstæðan stíl„

Snyrtilegasta lóðin í dreifbýli var að þessu sinni hjá þeim Dagbjörtu Briem Gísladóttur og Sigurði Baldurssyni á Sléttu í Reyðarfirði. Í umsögn dómnefndar segir: “Umhverfi bæjar er mjög snyrtilegt og nánast hvergi rusl að sjá né annan óþarfa, ekki einu sinni utan við gripahúsin. Heyrúllum raðað afar snyrtilega upp. Lóðin hefur góða heildar ásýnd.  Slétta er afar snyrtilegur bóndabær og það gefur skemmtilegan blæ að sjá hænurnar frjálsar við bæinn.„

Viðurkenningu fyrir snyrtilegustu lóð fyrirtækis eða stofnunar kom í hlut Steinasafns Petru á Stöðvarfirði. Umsögn dómnefndar um lóð Steinasafnsins er svo hljóðandi: "Hér gefur að líta mjög metnaðarfulla rekstraraðila sem hafa náð að gera heildarásýnd svæðisins afar fagra. Einnig er hugsað vel út í hvert einasta smáatriði í garðinum, blóm, steinar sem allt annað er vel ígrundað. Garðurinn er einstaklega blómlegur og plöntuvalið er fjölbreytt. Steinasafn Petru er velhirt blómaparadís“

Fjarðabyggð óskar handhöfum umhverfisviðurkenningana innilega til hamingju.

Fleiri myndir:
Umhverfisverðlaun Fjarðabyggðar 2017 afhent
Hæðargerði 23 - Snyrtilegasta lóðin í þéttbýli.
Umhverfisverðlaun Fjarðabyggðar 2017 afhent
Steinasafn Petru - Snyrtilegasta umhverfi fyrirtækis eða stofnunnar.
Umhverfisverðlaun Fjarðabyggðar 2017 afhent
Slétta - Snyrtilegasta lóðin í dreifbýli
Umhverfisverðlaun Fjarðabyggðar 2017 afhent
Handhafar umhverfisverðlauna Fjarðabyggðar 2017 ásamt bæjarstjóra, umhverfisstjóra og varafomanni ESU. (f.v) Ragnar Sigurðsson, varaformaður ESU, Sigurður Baldursson og Dagbjört Briem Gísladóttir, Sléttu, Ari B. Guðmundsson og Jóna Björg Margeirsdóttir, Hæðargerði 23, Petra Sveinsdóttir frá Steinasafni Petru, Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri og Anna Berg Samúelsdóttir umhverfisstjóri.