mobile navigation trigger mobile search trigger
06.12.2023

Úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Austurlands

Úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Austurlands fór fram í gær þriðjudaginn 5. desember í Sláturhúsinu menningarmiðstöðinni á Egilstöðum. Alls bárust 115 umsóknir upp á 222 milljónir. 55 umsóknir á sviði atvinnu og nýsköpunar, 54 á sviði menningar og 6 um stofn- og rekstrarstyrki. Úthlutunarnefnd samþykkti styrkveitingar til 67 verkefna af þeim 115 sem sóttu um.

Úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Austurlands

Í ár voru til úthlutunnar 64,85 milljónir. 30,95 milljónir fóru í 31 atvinnu og nýsköpunarverkefni, 28,9 milljónir til 33 verkefna í menningu og 5 milljónir til 3 stofn- og rekstrarstyrkja. Heildarkostnaður verkefna sem sótt var um taldi 659 milljónir. Umsóknum í sjóðinn fjölgaði um 15% milli ára, nokkuð jafnt milli flokka, sem endurspeglar þá miklu grósku í atvinnu- og nýsköpun, sem og frjótt menningarstarf á Austurlandi. 

Fjöldi verkefna úr Fjarðabyggð hlutu styrk

Á meðal styrkhafa úr Fjarðabyggð eru:

Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði hlaut styrk til að þróa svonefnt sköpunareldhús. Ætlunin er að byggja upp matvælaeiningu Sköpunarmiðstöðvarinnar sem samanstanda mun af vottuðu samfélagseldhúsi og kaffibar sem nýtast mun til matvælaframleiðslu, námskeiðahalds, matarkynninga og annarra viðburða.

Kaffibrensslan Kvörn til að hefja framleiðslu Kvarnarinnar í Sköpunarmiðstöðinni og að fullþróa framleiðsluumhverfi og framleiðsluferli brennslunnar. 

Sabina Helvida með verkefnið Luxury by Sabina sem framleiðir snyrtivörur úr gæðahráefni þar sem lögð er áhersla á að nýta lækningamátt íslenskra og bosnískra jurta auk þess sem vannýtt hráefni eins og hreindýratólg, sandur og þari eru notuð til að búa til fallegar og heilsusamlegar snyrtivörur. 

Margrét Sigfúsdóttir fyrir verkefnið Sóknarfæri ferðaþjónustunnar í Mjóafirði. Lögð verður áhersla á að kynna ferðaþjónustuna í Mjóafirði í gegnum samfélagsmiðla og heimasíðu ferðaþjónustunnar.  

Austurland Freeride Festival sem er árleg fjallaskíða- og snjóbrettahátíð haldin á Austurlandi og notar Eskifjörð og Oddsskarð sem bækistöð. 

Rokk hátíðin ,,Austur í Rassgati" eða ,,Orintu Culus" verður í Egilsbúð á Norðfirði í september 2024.

Verkmenntaskóli Austurlands  fyrir Tæknidag fjölskyldunnar, sem hefur um árabil vakið athygli á mikilvægi tækni, nýsköpunar, vísinda og iðnaðar fyrir atvinnulíf og samfélag á Austurlandi.

Jóhanna Lárusdóttir fyrir verkefnið Sjálfbær vínframleiðsla með áherslu á uppskeru villtrar berja til eflingar fjölbreytni og upplifun gesta innlendra sem erlendra. Hugsað sem viðbót við þær tegundir áfengra drykkja sem framleiddir eru á Íslandi. 

Menningarstofa Fjarðabyggðar hlaut styrk fyrir verkefnið Fjölbreyttar listasmiðjur og listsýningar í Fjarðabyggð. Menningarstofa Fjarðabyggðar mun standa fyrir fjölbreyttri menningardagskrá í tengslum við listasmiðjur fyrir börn og listhátíðna Innsævi. 

Tónlistarmiðstöð Austurlands hlaut styrk fyrir Upptaktinn 2024. Upptakturinn veitir börnum á Austurlandi tækifæri til að senda inn frumsamið lag og vinna að útsetningu undir leiðsögn tónlistarfólks á svæðinu. 

Gerð nýrrar sóknaráætlunar brýn

Þetta er í síðasta sinn sem úthlutað er úr Uppbyggingarsjóðnum samkvæmt núgildandi sóknaráætlun Austurlands en hún rennur út í lok næsta árs. Þuríður Lillý Sigurðardóttir, varaformaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, ávarpaði samkomuna og sagði m.a. að mikilvægt væri að fleiri ráðuneyti tækju þátt í fjármögnun nýrrar sóknaráætlunnar. „Hún er mjög mikilvæg fyrir Austurland sem og aðra landshluta og brýnt að halda áfram á svipaðri braut og verið hefur. Mikilvægt er að fleiri ráðuneyti taki þátt í nýrri Sóknaráætlun landshluta með beinu fjármagni og möguleikar á auknu fjármagni skoðaðir til eflingar atvinnulífs úti á landi, sérstaklega í þeim landshlutum sem lengst eru frá höfuðborgarsvæðinu. Við þurfum meðbyr til áframhaldandi vinnu við eflingu landsbyggðarinnar með fjölbreyttu og öflugu atvinnulífi,“ var meðal þess sem Þuríður sagði í ræðunni sinni.

Um verkefnin 67 sem hlutu styrk úr sjóðnum í gær má lesa hér.

Fleiri myndir:
Úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Austurlands
Lilja Alfreðsdóttir Menningarmálaráðherra
Úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Austurlands
Unnar Geir Unnarsson formaður úthlutunarnefndar
Úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Austurlands
Úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Austurlands
Mynd: Ingvi Örn Þorsteinsson
Úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Austurlands
Hreinn Stephensen, verkefnastjóri Menningarstofu Fjarðabyggðar og Jóhann Ágúst, forstöðumaður