mobile navigation trigger mobile search trigger
25.08.2015

Samfélagsorðan – Hvatningarverðlaun fyrir ungmenni

Samfélagsorðan er verkefni sem ætlað er að virkja ungmenni til virkrar þátttöku í jákvæðu og uppbyggjandi félagslífi. Kynningarfundur fyrir verkefnið verður í Sómasetrinu Reyðarfirði 31.ágúst, kl. 18:00, þar sem félagasamtök og aðrir áhugasamir geta gerst samstarfsfélagar og tekið þátt í uppbyggingu á þessu frábæra verkefni.

Samfélagsorðan – Hvatningarverðlaun fyrir ungmenni

Nú á næstu vikum er að fara í gang verkefni á vegum JCI Austurlands sem nefnist Samfélagsorðan. 

Til að byrja með mun markhópur verkefnisins vera ungmenni í 8.-10. bekkjum grunnskólanna í Fjarðabyggð og er markmið þessa verkefnis að hvetja þau til virkrar þátttöku í jákvæðu og uppbyggjandi félagslífi ásamt því að auka samfélagsvitund þeirra. Þegar sagan er skoðuð kemur í ljós að þátttaka og þá sérstaklega nýliðun í félagasamtökum hefur dalað töluvert síðastliðna áratugi. Sem dæmi má nefna að árið 1985 voru rúmlega 2.000 meðlimir í JCI hreyfingunni á Íslandi í flest öllum byggðarkjörnum landsins en í dag eru þeir einungis um 100. Hvað veldur þessari þróun? Er aukið sjónvarps gláp, tölvuleikjanotkun, samfélagsmiðlar og annríki nútíma samfélags að hafa þessi áhrif? Það er ómögulegt að segja. Fjöldi JCI meðlima á Íslandi hefur hins vegar farið vaxandi síðastliðin ár m.a. vegna nýrra og spennandi verkefna eins og þess sem nú er að fara í gang.

Samfélagsorðan byggist á því að ungmennin hafa aðgang að lista yfir fjölda tómstundamiðaðra markmiða sem þeim stendur til boða að takast á við. Þetta getur t.d. verið þátttaka í íþrótta- og félagastarfi, ýmiss konar námskeið, útivist, verkefni sem þau hefja að eigin frumkvæði o.fl. Þegar hverju markmiði fyrir sig er náð mun leiðbeinandi þess verkefnis gefa umsögn og staðfestingu í þar til gert „vegabréf“ sem hver og einn nemandi fær eintak af. Þegar nemendurnir hafa svo náð að ljúka við ákveðinn lágmarksfjölda markmiða munu þeir fá afhenta Samfélagsorðuna ásamt viðurkenningu á hátíðlegri athöfn sem stefnt er á að verði í lok hvers skólaárs.

JCI Austurland hefur boðað til opins fundar mánudaginn 31. ágúst kl.18:00 í Sómasetrinu á Reyðarfirði (gamla Landsbankahúsinu) þar sem áhugasamir geta komið og kynnt sér verkefnið. Þar geta fulltrúar hvers konar félagasamtaka fengið upplýsingar um hvernig þau geta tekið þátt í Samfélagsorðunni ásamt því að sjá hvernig þetta verkefni getur eflt þeirra starfsemi og stuðlað að aukinni nýliðun úr hópi ungmenna í elstu bekkjum grunnskólanna. Boðið verður uppá veitingar á fundinum og er þeim sem munu sjá sér fært að mæta á fundinn því bent á að skrá sig hjá Davíð Brynjari, verkefnastjóra Samfélagsorðunnar.

Skrá mig á fundinn

Davíð Brynjar Sigurjónsson, verkefnastjóri veitir nánari upplýsingar.

davidsjonna@gmail.com

6602673 / 867 0349

Varaforseti, JCI Austurland

Frétta og viðburðayfirlit