mobile navigation trigger mobile search trigger
09.03.2016

Eskja byggir frystihús

Eskja hf. hyggst ráðast í byggingu frystihúss fyrir uppsjávartegundir á næstu mánuðum. Fyrsti áfangi verkefnisins kostar um fimm milljarða króna. 

Eskja byggir frystihús

Frysting afurða mun færast í land og ráða hagkvæmnissjónarmið í þeim efnum. Fjölmörg störf munu skapast við uppbygginguna, meðal annars vegna framleiðslu á fullkomnum tæknibúnaði í hið nýja frystihús. Áætlað er að vinnsluskipinu Aðalsteini Jónssyni verði skipt út þegar frystihúsið verði komið í gang, vonandi í september á þessu ári.

Eskja hf hefur samið við tækjaframleiðandann Skagann hf. ásamt samstarfsfyrirtækjum hans um smíði og uppsetningu á búnaði í frystihúsið sem verður staðsett í nýju 7.000 fermetra stálgrindarhús á hafnarsvæði Eskifjarðar. Unnið hefur verið að uppfyllingu á svæðinu um nokkurt skeið, meðal annars með efni úr Norðfjarðargöngum. Að sögn Ingólfs Árnasonar hjá Skaganum hf. mun verkefnið mun skapa fjölmörg störf víðs vegar um landið. Hann segir stærstan hluta smíðinnar fara fram hjá Skaganum og systurfyrirtæki þess Þorgeir & Ellert hf. á Akranesi. Eins muni nokkur umsvif verða hjá samstarfsfyrirtækjunum Frost og Rafeyri á Akureyri og á Ísafirði muni systurfyriræki Skagans, 3X Technology sjá um stóran hluta smíðinnar ásamt samstarfsfyrirtækjum þar. Verkfræðistofan Efla á Austurlandi sér um hönnun hússins og mun byggingin verða í höndum verktaka á Eskifirði og í nágrenni. 

Deiliskipulagsvinna fyrir svæðið hefur staðið yfir en hún tekur mið af þessari fyrirhuguðu starfsemi. 

Frétt af vef RÚV

Frétta og viðburðayfirlit