mobile navigation trigger mobile search trigger
26.04.2016

Leitað að ungu fólki til að taka þátt í ungmennaskiptaverkefni

UÍA leitar að ungu fólki á aldrinum 18-25 ára til að taka þátt í spennandi ungmennaskiptaverkefni sem UÍA stendur fyrir ásamt írskum ungmennasamtökum.  Verkefnið ber yfirskriftina F:ire & ice Fitness, Fun, Further yourself and your Future: IRELAND and ICELAND og er styrkt af Evrópu unga fólksins.

Leitað að ungu fólki til að taka þátt í ungmennaskiptaverkefni

Verkefnið er tvíþætt og gengur annarsvegar út á heimsókn írsks ungmennahóps dagana 20.-27. ágúst. Írarnir munu taka þátt, ásamt austfirskum ungmennum í vikulöngu verkefni þar sem lögð verður áhersla á útivist, hreyfingu og sjálfseflingu, hluti af dagskrá verkefnisins fer fram upp til fjalla, en þátttakendur munu m.a. ganga frá Óbyggðasetri upp í Laugarfell. Í verkefninu munu þátttakendur kynnast ýmiskonar íþróttum, útivist og hreyfingu, fá innsýn í írska menningu og siði og vinna markvisst með að bæta færni sína á ýmsan hátt s.s. í ljósmyndun, videógerð, leiklist og sjálfsstyrkingu. Í lok vikunnar mun hópurinn setja upp sýningu í Sláturhúsinu þar sem afrakstur vinnu vikunnar verður kynntur með ýmsum hætti.

Hinn hluti verkefnisins felur í sér ferð austfirskra ungmenna til Írlands að vori 2017, þar sem unnið verður með svipaða áhersluþætti. 

UÍA leitar nú að átta austfirskum ungmennum 18-25 ára, til að taka þátt í verkefninu. Horft verður til fjölbreytileika við val á hópnum en kostur er að þáttakendur hafi áhuga á útivist, hreyfingu og sjálfsuppbyggingu, hafi tekið þátt í starfi UÍA, aðildarfélaga þess eða öðru félagsstarfi og séu tilbúnir að reyna eitthvað nýtt og skemmtilegt.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu eru beðnir að skrifa stutta umsókn sem inniheldur helstu persónuupplýsingar sem og yfirlit yfir ofangreinda þætti og sendi til skrifstofu UÍA á netfangið uia@uia.is fyrir 2. maí.

Frétta og viðburðayfirlit