mobile navigation trigger mobile search trigger
08.06.2016

Niðurstöður umhverfisvöktunar í Reyðarfirði

Meðaltalsgildi flúors í grasi lækkaði talsvert á milli ára, samkvæmt niðurstöðum umhverfisvöktunar í Reyðarfirði. Niðurstöður voru kynntar á opnum kynningarfundi sem fram fór nýlega í safnaðarheimilinu á Reyðarfirði.

Niðurstöður umhverfisvöktunar í Reyðarfirði

Á fundinum voru annars vegar niðurstöður úr eftirliti og mælingum á losum hjá Alcoa Fjarðaáli kynntar og hins vegar niðurstöður úr umhverfisvöktun Náttúrustofu Austurlands.

Sá Halla Einarsdóttir frá Umhverfisstofnun um kynningu þess hluta sem lýtur að eftirliti og mælingum innan álversins, en Kristín Ágústsdóttir, forstöðumaður Náttúrustofu Austurlands, um þær niðurstöður sem heyra undir mælingar nnan og utan þynningarsvæðis álversins.

Þá kynnti Sigríður Kristjánsdóttir, Umhverfisstofnun, breytt nýtt fyrirkomulag á kynningum á vöktunarniðurstöðum, sem fer nú fram á opnum fundum, og Magnús Ásmundsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, flutti erindi um m.a. markið álversins í umhverfismálum og samfélagslegri ábyrgð.

Meginniðurstöður eru að styrkur flúors í öllum gróðri hefur haldið áfram að lækka frá því að gildi mældust hæst árin 2012-2013.

Meðalstyrkur flúors í grasi og heyi var undir hámarksgildum fyrir jórturdýr á öllum stöðum utan þynningarsvæðis. Er í sumum tilvikum um að ræða lægstu gildi sem mælst hafa í gróðri, fyrir utan árið 2011, þegar gildi mældust heilt yfir hvað lægst frá því að álverið hóf fullan rekstur. Frá árinu 2013 hefur meðalstyrkur lækkað úr 37,7 míkrógrömmum í 19,7.

Breytingar á styrk brennisteins og köfnunarefnis frá því fyrir rekstur álvers eru ekki augljósar. Eldgosið í Holuhrauni er fyrsta eldgosið frá því álverið tók til starfa sem veldur mengun í Reyðarfirði að einhverju marki. Svo virðist sem sú mengun hafi ekki haft mikil áhrif til hækkunar á mældum gildum ýmissa efna í gróðri eða í neysluvatni árið 2015.

Þá mældust lægri flúorgildi í beinösku kjálka í sauðfé en á árinu 2014. Sýni eru þó fá og lítið hægt að álykta um þróun á styrk flúors í kjálkabeinum frá því álver tók til starfa. Sjónrænt mat kjálkanna gaf til kynna að öll lömb væru við góða tannheilsu, en erfitt var að draga ályktanir um tannheilsu eldra fjár vegna fárra sýna. Sjónræn skoðun lifandi kinda og hesta í Reyðarfirði leiddi einnig í ljós að dýrin virtust almennt heilbrigð. Flúor sem mælist í beinösku af bæði lömbum og fullorðnu fé, sem gengur í Reyðarfirði, er mun meiri en af sauðfé í öðrum landshlutum.

Sjá Árskýrslu 2015 vegna umhverfisvöktunar á Reyðarfirði

Frétta og viðburðayfirlit