mobile navigation trigger mobile search trigger
21.01.2020

Kveðja til íbúa á Flateyri og Suðureyri

Á fundi bæjarráðs Fjarðabyggðar þann 20.1.2019 var fjallað um atburðina á Vestfjörðum í síðustu viku þegar nokkur snjóflóð féllu á Flateyri og á Suðureyri. Bæjarráð sendi hlýjar kveðjur vestur vegna atburðanna og undirstrikaði um leið mikilvægi þess að framkvæmdum við ofanflóðavarnir verði framhaldið og fjármagn úr Ofanflóðasjóð verði verði nýtt til þess.

Kveðja til íbúa á Flateyri og Suðureyri

Bókun Bæjarráðs Fjarðabyggðar hljómar svo:

Bæjarráð Fjarðabyggðar sendir íbúum Flateyrar, Suðureyrar og Vestfirðingum öllum hlýjar kveðjur vegna snjóflóðanna í liðinni viku. Mikil mildi var að ekki varð manntjón en ljóst er að eignatjón er mikið. Þá um leið var ánægjulegt að sjá að ofanflóðavarnir stóðust áraunina og skiptu sköpum í að verja byggðina á Flateyri og sýndu þannig hversu ómetanlegar þær framkvæmdir eru fyrir samfélögin sem búa við náttúruvá eins og ofanflóð. Bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð hafa bent á og barist fyrir því um langt árabil að framkvæmdum við ofanflóðavarnir sé framhaldið og farið eftir lögum þar um. Núgildandi lög kveða á um að vörnum sé lokið á þessu ári en langt í frá er að því verði lokið. Það er algerlega ólíðandi að fjármagn það sem aflað hefur verið í Ofanflóðsjóð frá upphafi hans hafi ekki verið nýtt til uppbyggingar ofanflóðamannvirkja og við verður ekki unað lengur. Því áréttar bæjarráð Fjarðabyggðar enn einu sinni við stjórnvöld að nú verður að setja kraft í uppbyggingu mannvirkja og áætlun um slíkt þarf að koma fram strax.