mobile navigation trigger mobile search trigger
19.10.2021

Samstarfssamningur Heimilis og skóla við Fjarðabyggð og Fjarðaforeldra

Mánudaginn 18. október skrifuðu fulltrúar Heimilis og skóla, Fjarðabyggðar og Fjarðaforeldra undir samstarfssamning þess efnis að fagaðilar frá Heimili og skóla komi árlega með fræðslu til skólasamfélagsins í Fjarðabyggð. Áherslan er fyrst í stað lögð á SAFT fræðslu, þ.e.  jákvæða og örugga netnotkun barna og unglinga ásamt fræðslu til bekkjarfulltrúa og foreldrafélaga í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins.

Samstarfssamningur Heimilis og skóla við Fjarðabyggð og Fjarðaforeldra

Það er markmið allra þeirra aðila sem að samningnum koma að efla og styrkja börnin okkar, ýta undir að þau blómstri í og utan skóla á fjölbreyttan hátt. Til þess að ná því markmiði er samstarfið og samheldnin mikilvæg, að allir gangi í takt, að heilbrigð og hvetjandi samræða eigi sér stað og nægt svigrúm sé fyrir gleði og umburðarlyndi. Við viljum öll að börnin okkar hafi jákvæða sjálfsmynd og nægt sjálfsöryggi til að takast á við þau fjölbreyttu viðfangsefni sem lífið býður upp á. Það eru börnin sem erfa landið og munu gera heiminn að enn betri stað og til að aðstoða þau er mikilvægt að byggja undir traust og gott samstarf allra aðila sem að uppeldi og námi þeirra koma.

Það var bjart yfir hópnum sem kom að undirritun samstarfssamningsins og ánægjulegt að fylgjast með fræðslunni fara af stað, jafnt í skólunum sem í foreldrahópnum.