mobile navigation trigger mobile search trigger
07.06.2019

Skipulagsbreytingar samþykktar í bæjarstjórn Fjarðabyggðar

Á fundi bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, fimmtudaginn 6. júní var tillaga stjórnkerfisnefndar um skipulagsbreytingar á stjórnkerfi Fjarðabyggðar samþykkt.

Skipulagsbreytingar samþykktar í bæjarstjórn Fjarðabyggðar

Breytingarnar fela í sér að störf félagsmálastjóra og fræðslustjóra verða lögð niður sem sviðsstjórastörf og þess í stað verður ráðinn sviðsstjóri fjölskyldusviðs. Starf sviðsstjóra fjölskyldusviðs verður fyrst og fremst stjórnendastarf, sem ætlað er að samhæfa rekstur þeirra málaflokka sem nú heyra undir sviðið.

Þá er lagt til að fjölskyldusviði verði skipt upp í eftirfarandi fjóra málaflokka.

  • Félags- og öldrunarteymi
  • Barnaverndar- og fjölskylduráðgjafarteymi
  • Æskulýðs- og íþróttateymi
  • Fræðsluteymi

Núverandi sviðsstjórnendum verða boðin ný störf yfirmanna teyma sem starfa undir stjórn nýs sviðsstjóra. Stefnt er að ráðningu sálfræðings, kennsluráðgjafa og annarra fagaðila, sem nauðsynlegir þykja til að styrkja megi snemmtæka íhlutun sem og aðrar forvarnir.  Þá verður einnig metið hvort Fjarðabyggð taki til sín starfsemi þess hluta Skólaskrifstofu Austurlands sem þjónar Fjarðabyggð.

Gert er ráð fyrir að breytingarnar taki gildi þann 1. september 2019.