mobile navigation trigger mobile search trigger

Byggingarheimild

Bygg­ing­ar­heim­ild er nýtt hug­tak sem varð til við breyt­ingu á bygg­ing­ar­reglu­gerð 123/2010 í árs­lok 2021 (nr. 1321/2021).

Breyt­ing bygg­ing­ar­reglu­gerð­ar­inn­ar fólst fyrst og fremst í því að bygg­ing­ar­fram­kvæmd­um var skipt upp í þrjá flokka eft­ir um­fangi þeirra, í þeim til­gangi að skýra stjórn­sýslu í mann­virkja­mál­um og gera um­sókn­ar­ferl­ið skil­virk­ara. Kröf­ur um hönn­un og bygg­ing­ar­eft­ir­lit eru þær sömu hvort sem um er að ræða bygg­ing­ar­heim­ild eða bygg­ing­ar­leyfi. Kröf­ur um yf­ir­ferð sérupp­drátta og skil á þeim áður en við­kom­andi verk­þátt­ur er unn­inn er þó rýmri á mál­um sem fá bygg­ing­ar­heim­ild, sérupp­drætt­ir þurfa að liggja fyr­ir áður en sótt er um ör­ygg­is- og loka­út­tekt. Á mál­um sem fá bygg­ing­ar­heim­ild er auk þess ekki skylda að skrá iðn­meist­ara verks­ins hjá bygg­ing­ar­full­trúa – en þó er skylda að bygg­ing­ar­stjóri verks­ins haldi utan um þær upp­lýs­ing­ar í sínu gæða­kerfi.

Um­sókn og veit­ing bygg­ing­ar­heim­ild­ar á við um þau mann­virki sem falla í um­fangs­flokk 1 skv. bygg­ing­ar­reglu­gerð. Í þess­um um­fangs­flokki eru „minni mann­virkja­gerð þar sem lít­il hætta er á mann­tjóni, efna­hags­leg­ar og sam­fé­lags­leg­ar af­leið­ing­ar mögu­legs tjóns á mann­virki eru litl­ar og um­hverf­isáhrif eru tak­mörk­uð“ – eins og seg­ir í grein 1.3.2 bygg­ing­ar­reglu­gerð­ar­inn­ar. Haft er til við­mið­un­ar að í þess­um um­fangs­flokki séu mann­virki þar sem ekki safn­ast sam­an mik­ill fjöldi fólks og fólk hef­ur ekki fasta bú­setu. Í um­fangs­flokk 1 falla t.d. eft­ir­tald­ar bygg­ing­ar­fram­kvæmd­ir:

  • Geymslu­hús­næði
  • Land­bún­að­ar­bygg­ing­ar
  • Frí­stunda­hús (sum­ar­hús)
  • Sælu­hús
  • Stak­stæð­ir bíl­skúr­ar
  • Gesta­hús
  • Skál­ar og við­bygg­ing­ar við þeg­ar byggð mann­virki.
  • Nið­urrif mann­virkja (að há­marki 4 hæð­ir og/eða minna en 2.000 fer­metr­ar)