mobile navigation trigger mobile search trigger

FYRIRHUGAÐAR BREYTINGAR Í FRÆÐSLUMÁLUM FJARÐABYGGÐAR/Spurt og svarað

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti á fundi sínum þann 19. október 2023 að stofnaður yrði starfshópur um Skipan fræðslumála í Fjarðabyggð. Starfshópurinn var skipaður um afmarkað verkefni, að skoða með hvaða hætti hægt væri að breyta rekstri leik-, grunn- og tónlistarskóla Fjarðabyggðar með það fyrir augum að auka rekstrarlega samlegð og bæta faglegt starf.

Markmið breytinganna er í samræmi við stefnumörkun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, um að hefja vinnu við að endurskoða fræðslumál með það fyrir augum að rýna í fyrirkomulag á rekstri leik-, grunn- og tónlistarskóla með það fyrir augum að auka enn frekar faglegt samstarf og samlegð í rekstri. Framlagðar breytingar eru í samræmi við það markmið sem starfshópnum var falið með erindisbréfi í október 2023.

Spurt og svarað:

Í hverju felast breytingarnar?

Í grunninn felast breytingarnar í að leik-, grunn- og tónlistarskólar vinna náið saman undir merkjum Leikskólar Fjarðabyggðar, Grunnskólar Fjarðabyggðar og Tónlistarskólar Fjarðabyggðar, með starfstöðvar í hverjum kjarna. Um er að ræða sameiginlega yfirstjórn ásamt eflingu skólaþjónustunnar undir sameiginlegri nafngift sem ýtir undir samlegðar áhrif og eykur samvinnu á milli stofnanna. Var það mat starfshópsins að með breytingunum gæfist tækifæri til að nýta betur þann mannauð innan fræðslumála með auknum samrekstri.  

Var horft til annarra sveitarfélaga varðandi breytingar í fræðslumálum?

Víða hafa átt sér stað breytingar í fræðslustarfi sveitarfélaga um allt land á undanförnum árum og jafnframt er verið að vinna að breytingum í fræðslustarfi innan sveitarfélaga þessa dagana. Má þar nefna Akureyrarbæ, Borgarbyggð, Snæfellsbæ og Rangárþing svo eitthvað sé nefnt. Í boðuðum breytingum hjá Fjarðabyggð, var horft til reynslu, útfærslu og fyrirkomulag annarra sveitarfélaga.

Hvaða störf verða lögð niður?

Störf aðstoðarleikskólastjóra og aðstoðarskólastjóra. Störfum deildarstjórar sérkennslu í grunnskólum verður breytt með þeim hætti að stjórnunarhluti starfsins er tekinn út, en sérkennslan helst óbreytt. Engar breytingar verða á störfum sérkennslustjóra í leikskólum. Sem mótvægi við þau áhrif sem þetta hefur, verður skólaþjónusta Fjarðabyggðar efld, ásamt því að ný staða verkefnastjóra sem fer með hlutverk tengiliðar, samkvæmt lögum um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna, auk stöðu fagstjóra.

Hvert er hlutverk fagstjóra?

Ráðnir verða inn tveir fagstjórar leik- og grunnskóla. Fagstjórarnir verða ábyrgðaraðilar yfir faglegu starfi grunn- og leikskóla Fjarðabyggðar, bera ábyrgð á starfi þeirra og tryggja að það sé í samræmi við lög og reglugerðir. Fagstjórar bera ábyrgð á innra mati skólanna. Þeir aðstoða skólastjórnendur á hverri starfsstöð við mannauðsmál þ.m.t. fræðslu til starfsmanna og við ákveðin fjárhagstengd verkefni. Einnig er hlutverk fagstjóra að sameina verklag á milli starfstöðva þar sem það á við. Fagstjórar grunnskóla og fagstjóri leikskóla munu heyra undir stjórnanda fræðslumála og skólaþjónustu.

Fagstjóra er ætlað að vinna inn í skólunum, náið með skólastjórum.

Hver sinnir starfi leikskólastjóra og grunnskólastjóra í þeirra fjarveru?

Það er í höndum stjórnanda hvors skólastigs fyrir sig að velja sinn staðgengil.

Hver sér um mönnun í leik- og grunnskólum?

Eftir sem áður er það í höndum leikskóla- og grunnskólastjóra að ráða í lausar stöður.

Hvernig mun fagstjóri forgangsraða tíma sínum?

Fagstjóri mun forgangsraða tíma sínum eftir verkefnum hverju sinni.

Hver sér um skipulagningu á daglegu skólastarfi, stundatöflugerð og úthlutun kennslutíma?

Eftir sem áður er það í höndum leikskóla- og grunnskólastjóra að skipuleggja skólastarf fyrir komandi skólaár.

Hverju eru þessar breytingar að  bæta við faglegt starf sem er innan skólanna?

Með sameiginlegri yfirstjórn og öflugri skólaþjónustu verður enn frekari samvinna milli skóla sem eykur á samtal og eflir lærdómssamfélagið.

Verður skerðing á skólaþjónustu?

Efla á skólaþjónustu Fjarðabyggðar með því að fjölga fagaðilum og gera hana aðgengilegri í skólum Fjarðabyggðar. Ráðið verður í  stöður þroskaþjálfa, iðjuþjálfa og náms- og starfsráðgjafa sem munu styðja við nemendur og kennara innan og þvert á skólana.

Með aukinni samþættingu og sterkari skólaþjónustu er markmiðið að efla skólastarf enn frekar.

Hvernig verður starfi skólaþjónustu háttað? 

Áhersla er lögð á að starf skólaþjónustunnar verði sem sýnilegast innan skólanna. Komið verður á skipulagi skólaþjónustu og fagstjóra, þannig að þau séu sem mest innan skólanna og forgangsraða störfum sínum þannig.

Hvernig verður sérkennslu háttað?

Áfram verða sérkennarar starfandi innan skólanna og munu þeir njóta stuðnings frá fjölbreyttari skólaþjónustu.

Verða breytingar á þjónustu til barna með sérþarfir?

Nei, með breytingunum er stefnt að því að auka þjónustu við börn með sérþarfir með því að bæta við þremur stöðugildum í skólaþjónustunni. Það er, þroskaþjálfa, iðjuþjálfa og náms- og starfsráðgjafa, sem munu svo starfa þvert á skólastofnanir. Ný verkefnastjórastaða verður búin til á hverri starfsstöð sem einnig mun sinna hlutverki tengiliðar, samkvæmt lögum um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna.

Standast breytingarnar lög? 

Já, samkvæmt afstöðu mennta- og barnamálaráðuneytisins standast breytingarnar gildandi lög. Hins vegar voru gerðar athugasemdir við framkvæmd breytinganna. Það er, gildandi lög og reglugerðir gera ákveðnar kröfur til undanfara slíkra breytinga. Fjarðabyggð mun fara eftir þeirri afstöðu ráðuneytisins og kalla eftir umsögn foreldraráða leikskóla og skólaráða grunnskóla. Ásamt því að funda með hlutaðeigandi aðilum í samráðsferlinu.

Hvernig verður samráði háttað? 

Í afstöðu ráðuneytisins kemur fram að um meiriháttar breytingar er um að ræða, í þeim tilvikum ber sveitarfélögum að óska umsagna frá skólaráðum grunnskóla og foreldraráðum leikskóla. Fjarðabyggð hefur óskað eftir umsögnum frá skólaráðum grunnskóla og foreldraráðum leikskóla og sent þeim greinagerð vegna fyrirhugaðra breytinga. Fundað verður með hlutaðeigandi aðilum í samráðsferlinu. Skilafrestur umsagna er til og með 8. maí og í kjölfarið verður farið yfir umsagnir þessara aðila. 

Hvenær taka breytingarnar gildi?

Stefnt er að breytingarnar taki gildi frá og með næsta skólaári 2024/2025.

Breytingar á kennslutímaúthlutun – Um hvað snúast þær?

Talsverð umræða hefur skapast um breytingar á kennslutímaúthlutun grunnskóla sem samþykktar voru nýlegar í fjölskyldunefnd og bæjarráði. Breytingarnar á kennslutímaúthlutun snúa ekki að þeim breytingum sem hafa verið kynntar í fræðslumálum. Sú vinna hefur staðið yfir, um allt land frá árinu 2019 og snýr að því að ramma betur inn þjónustuna gagnvart þeim nemendum sem þurfa á mestum stuðningi að halda. Með nýrri kennslutímaúthlutun er ekki verið að skerða kennslutímamagn í grunnskólum Fjarðabyggðar. Úthlutunin er verkfæri til að ákvarða magn kennslutíma, en áfram hafa skólastjórar svigrúm til að forgangsraða tímum til kennslu innan sinna skóla.

Um er að ræða verkfæri til að reikna út kennslutímamagnið, en áfram er litið til sérstakra aðstæðna innan hvers skóla.

Fyrir frekari fyrirspurnir má senda á netfangið fjardabyggd@fjardabyggd.is

Þær verða svo teknar fyrir og þeim svarað á þessari síðu, svo svörin séu aðgengileg öllum. Við munum leggja okkur fram við að bæta við spurningum og svörum eins fljótt og auðið er.