mobile navigation trigger mobile search trigger
14.06.2021

Draugahundur í gamla barnaskólanum á Eskifirði

Fimmtudaginn 17. júní verður sýningin "Draugahundur" opnuð í Gamla barnaskólanum á Eskifirði. Sýningin samanstendur af 12 ljósmyndum af Samoyed hundum. Samoyed hundurinn sem líkist draug var upphaflega ræktaður til að veiða, draga sleða, og smala hreindýrum. Sýningin Draugahundur í Gamla Barnaskólanum á Eskifirði er á vegum Menningarstofu Fjarðabyggðar. Sýningin er opin laugardaga og sunnudaga frá 17. júní til og með 25. júlí en einnig samkvæmt samkomulagi við Menningarstofu Fjarðabyggðar.

Draugahundur í gamla barnaskólanum á Eskifirði

Hver er þessi hundur? Hundurinn í okkur? Hvíti draugahundurinn er mættur til Eskifjarðar.

Bjargey Ólafsdóttir lærði ljósmyndun, málaralist og blandaða tækni í Myndlista og handíðaskóla Íslands og Listaakademíunni í Helsinki, og handritsgerð og leikstjórn í Binger Filmlab í Amsterdam. Hún vinnur í fjölbreyttum miðlum, og verður útkoman oft í formi íronískra verka, stundum ofbeldisfullra eða óhugnanlegra, og sækir hún innblástur í þráhyggjur og fantasíur nútímalífs. Persónurnar í verkum hennar eru gjarnan einstaklingar sem týnast í kunnuglegum en þó framandi aðstæðum. Hún hefur gert nokkrar kvikmyndir sem hlotið hafa lof gagnrýnenda, og hefur sýnt verk sín víða um lönd, t.d. í Listasafni Reykjavíkur, Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Nýlistasafninu í Reykjavík, Kunstverein í München, KunstWerke í Berlín, Galaria Traschi í Santiago, Chile og Färgfabriken Norr í Östersund, Svíþjóð.

Enginn aðgangseyrir.

Bókin Rófurass sem tengist Draugahundinum er fáanleg á vefsíðu VOID: https://void.photo/rofurass

www.bjargey.com