mobile navigation trigger mobile search trigger
18.06.2019

Könnun um afstöðu íbúa til komu skemmtiferðaskipa

Starfshópur um gerð ferðamálastefnu Fjarðabyggðar vinnur þessa dagana að söfnun upplýsinga um afstöðu íbúa Fjarðabyggðar til komu skemmtiferðaskipa. Um er ræða þrjár stuttar kannanir sem teknar verða meðal íbúa í sumar.

Könnun um afstöðu íbúa til  komu skemmtiferðaskipa
Skemmtiferðaskip við höfn á Eskifirði. Ljósmynd: Atli Börkur Egilsson

Fyrr á árinu var stofnaður starfshópur á vegum sveitarfélagsins sem hefur þann tilgang að móta stefnu í málefnum sem snúa að ferðaþjónustu. Starfshópinn skipa; Magni Þór Harðarson formaður menningar- og nýsköpunarnefndar Fjarðabyggðar, Þórður Vilberg Guðmundsson upplýsinga- og kynningafulltrúi Fjarðabyggðar og Valgeir Ægir Ingólfsson atvinnu- og þróunarstjóri Fjarðabyggðar. Áætlað er að hópurinn klári sína vinnu í haust.

Í sumar munu 12 skemmtiferðaskip heimsækja Fjarðabyggð. Á þeim fundum og samtölum sem starfshópurinn hefur átt í undirbúningi fyrir sína vinnu komu fram athugasemdir sem snúa að komu skemmtiferðaskipa. Starfhópurinn vill því hafa það í huga við sína vinnu. Við viljum kanna á meðal íbúa Fjarðabyggðar hvernig upplifun íbúa af komu skemmtiferðaskipa er. Það gerum við hins vegar ekki án ykkar aðstoðar.

Á heimasíðu Fjarðabyggðar verða því aðgengilegar kannanir í allt sumar þar sem fólk getur sagt afstöðu sína til komu skemmtiferðaskipa. Til að fá sem bestar niðurstöður verða kannanirnar þrjár. Sú fyrsta gildir frá 12. júní til 12. júlí. Könnun númer 2 tekur gildi 13. júlí og gildir til og með 12. ágúst og þá hefst þriðja og síðasta könnuninn sem gildir fram í september. Spurningarnar verða keimlíkar í öllum könnununum en mikilvægt er samt að skipta þessu svona upp til að sjá hvort einhverjar breytingar verða á afstöðu til komu skemmtiferðaskipa yfir sumarið.

Við viljum því biðja íbúa um að fara reglulega inn á heimasíðu Fjarðabyggðar og svara spurningum sem snúa að upplifun íbúa. Sendar verða út tilkynningar þegar ný könnun tekur gildi. Eins hvetjum við fyrirtæki og aðra hagsmunaaðila til að svara líka, en auk þess verður sér könnun senda til þeirra í tölvupósti vegna afstöðu þeirra til skemmtiferðaskipana.

Niðurstöðurnar munu svo hjálpa til við að móta stefnu fyrir ferðaþjónustu í Fjarðabyggð sem verður í samræmi við væntingar og þarfir íbúa og samfélagsins alls.

Könnun fyrir tímabilið 12. júní - 12. júlí má nálgast með því að smella hér.

Með ósk um gott ferðasumar og góðar viðtökur fyrir hönd starfshópsins,

Magni Þór Harðarson.