mobile navigation trigger mobile search trigger
24.10.2016

Kuldaboli

Um helgina fór fram ungmennahátíðin Kuldaboli, samstarfsverkefni félagsmiðstöðva í Fjarðabyggð. Eins og vanalega var unglingum úr 8. – 10. bekk af öllu Austurlandi boðið að taka þátt. Aðalmarkmiðið með Kuldabola er að krakkar kynnist innbyrðis, prófi nýjar tómstundir og skemmti sér saman á heilbrigðan máta.

Kuldaboli

Smiðjur sem boðið var upp á þetta árið voru þrautasmiðja, hlussubolti, graffsmiðja og spilið Varúlfur. Mikill áhugi var fyrir öllum smiðjunum. Eftir að smiðjunum lauk um kvöldið, var boðið upp á risahamborgaraveislu. Grillgengið stóð sig frábærlega og tæplega 300 ungmenni og starfsmenn fengu sína magafylli.

Gamanið hélt svo áfram þar sem tendraður var varðeldur í frábæru veðri á lóð Grunnskóla Reyðarfjarðar, þar stjórnaði fyrrum nemandi skólans Daníel Kári Guðjónsson, mögnuðum hópsöng við snarkandi eldinn. Yndislegt var að fylgjast með ungmennunum syngja kröftuglega saman lög á borð við „Ég er kominn heim“ og „Vertu ekki að plata mig“. Að lokum fór fylkingin rakleiðis niður í Fjarðabyggðarhöll þar sem gamanið var bara rétt að byrja því ein vinsælasta hljómsveit landsins Úlfur Úlfur mætti á svæðið og skemmti krökkunum. DJ.ÍSA tók svo við keflinu og hélt uppi stuðinu langt fram á kvöld. Krakkarnir voru virkilega flottir og mikið var dansað og hlegið. Slökkt var á tónlistinni rétt rúmlega eitt. Sumir fóru þá strax í háttinn en flestir héldu áfram að spjalla langt fram undir morgun.

Heilt yfir tókst hátíðin ljómandi vel og gleðin skein úr andlitum hátíðargesta sem er besti mælikvarðinn á hversu vel tókst til. Það voru þó vissulega þreytt ungmenni sem komu heim til sín á sunnudagsmorgninum.

Okkur er skylt að taka fram að margar hendur koma að svona hátíð. Þakka ber öllum þeim sem lögðu hönd á plóg og sérstaklega þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem komu og aðstoðuðu. Ekki ber síst að þakka ungmennunum sjálfum sem voru sér og hátíðinni til sóma.  Alcoa hefur verið mjög sterkur bakhjarl hátíðarinnar undandarin ár og hefur fyrirtækið hjálpað til við að halda verðinu niðri fyrir ungmennin. Takk kærlega fyrir okkur!

Í lokin langar okkur að minnast á að graffsmiðjan okkar hefur greinilega, eins og öll alvöru list, kallað fram sterk viðbrögð og alls konar tilfinningar fólks á netmiðlum. Öll umræða er af hinu góða og skoðanir geta eðlilega verið skiptar. Við þurfum bara alltaf að hafa hugfast að vanda vel það sem við setjum á netið þannig að umræðan verið uppbyggileg og í því sambandi minnum við á reglur SAFT um netsamskipti.   Varðandi graffsmiðjuna okkar er vert að benda á að engar skemmdir voru unnar í Zveskjunni, en smiðjan var unnin í samráði við forstöðumenn og íþrótta- og tómstundafulltrúa. Eitt herbergi verður þó málað strax – þar sem talsvert var um óvandað orðaval. Einnig er búið að ræða við nema við listnámsbraut ME sem ætlar að aðstoða ungmennin og starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar, við að gera húsið að enn flottari og fallegri félagsmiðstöð en hún var áður.

Með bestu kveðju
Starfsfólk félagsmiðstöðvanna í Fjarðabyggð

Frétta og viðburðayfirlit