Íþróttadagur Grunnskólanna í Fjarðabyggð var haldinn 21. maí sl. í Grunnskóla Reyðarfjarðar. Þangað komu nemendur 7. – 10. bekkjar úr öllum grunnskólum sveitafélagsins. Dagskráin hófst um hádegi og fór fram til 17:00. Þar var árgöngum skipt eftir litum og nemendur hvattir til þess að klæða sig í viðeigandi lit til þess að sýna samheldni.
Íþróttadagur grunnskóla Fjarðabyggðar

Íþróttasvæði Reyðarfjarðar var svo skipt upp og nýtt í mismunandi stöðvar með mismunandi íþróttum á hverri stöð. Eftir dagskrá íþróttadagsins var tími fyrir ungmenni til þess að græja sig fyrir lokaball Félagsmiðstöðvanna sem hófst klukkan 19:00 í íþróttahúsinu á Reyðarfirði. Viðburðurinn var þriðja sameiginlega opnun félagsmiðstöðvanna í vetur.
Á ballið mættu tæplega 250 ungmenni og fyrst á dagskrá kvöldsins voru það þeir Anton og Svenni sem héldu uppi miklu stuði í Party Bingó. Finna mátti áþreifanlega spennu í salnum þegar krakkarnir kepptust um að fá réttar tölur og hafa mestu lætin (það var ósk frá bingóstjórum). Loks kom Dj. Karítas, tónlistakona og meðlimur Reykjavíkurdætra, á svið og hélt ballinu gangandi til klukkan 10:00 þegar haldið var heim eftir langan en skemmtilegan dag.
Verkefnið er unnið í samstarfi grunnskólanna og starfsmanna tómstundamála í Fjarðabyggð.
Þetta er í fyrsta skipti sem samstarf er um þessa tvo viðburði með þessum hætti.