Í gær, mánudaginn 12. maí, komu um 70 leikskólabörn af leikskólum Fjarðabyggðar fram í Eskifjarðarkirkju og sungu lög Braga Valdimars Skúlasonar. Yfirskrift tónleikanna var Leikur að orðum.
Húsfyllir á leikskólatónleikum í Eskifjarðarkirkju

Tónleikarnir voru samstarfsverkefni Menningarstofu Fjarðabyggðar og leikskóla Fjarðabyggðar en áður hafði Menningarstofa unnið með leikskólum í Múlaþingi á sambærilegum tónleikum í Sláturhúsinu í apríl. Alls komu fram hátt í 70 leikskólabörn af öllum fimm leikskólum sveitarfélagsins sem skemmtu fyrir fullu húsi foreldra og annarra aðstandenda. Tónlistarkonan Karitas Harpa Davíðsdóttir var kynnir á tónleikunum og stjórnaði barnakórnum.
Leikskólaverkefnið snýst um að efla tónlistarþátttöku elstu barna leikskólanna, kynna tónlistararfinn og tónlistarnám fyrir þeim og gera þeim kleift að efla eigin málskilning og orðaforða í gegnum skapandi leik og starf. Verkefnið byggir á áralangri samvinnu Tónskóla Sigursveins og leikskóla í Reykjavík þar sem elstu nemendur leikskóla æfa og vinna með ákveðin lög og flytja þau síðan á tónleikum með nemendum tónlistarskólans. Í fyrra voru gerðar tilraunir með að útvíkka verkefnið og í ár fékkst styrkur úr Barnamenningarsjóði sem fært hefur börnum um allt land tónlistargleðina. Sambærilegir tónleikar fóru því fram t.d. í Kópavogi, Reykjavík, Akureyri, Borgarbyggð, Vestfjörðum og víðar.
Leikskólarnir sem komu fram eru:
Leikskóladeild Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóla
Kæribær á Fáskrúðsfirði
Dalborg á Eskifirði
Lyngholt á Reyðarfirði
Eyrarvellir í Neskaupstað
Menningarstofa færir starfsfólki leikskólanna kærar þakkir fyrir gott samstarf og einstaklega góða samvinnu á tónleikadag.