Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri heimsótti nýverið bæði vinnuskóla Fjarðabyggðar og Sjávarútvegsskóla unga fólksins þar sem hún ræddi við nemendur og kynnti sér fjölbreytt og mikilvægt sumarstarf ungmenna víðs vegar um sveitarfélagið.
Bæjarstjóri heimsótti vinnuskólann og Sjávarútvegsskólann – yfir 140 ungmenni að störfum í sumar

Fjölmennur og öflugur vinnuskóli
Vinnuskóli Fjarðabyggðar er starfræktur á fimm stöðum: á Norðfirði, Eskifirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og Breiðdalsvík. Í ár taka 98 ungmenni, 14–15 ára, þátt í skólanum. Þau vinna frá kl. 8–12 í 5–6 vikur við fjölbreytt verkefni tengd umhirðu og fegrun bæjarins.
Auk þess starfa 42 ungmenni, sem nýlokið hafa 10. bekk, sem almennir sumarstarfsmenn hjá sveitarfélaginu. Þau vinna dagvinnu frá 8–16 í 10 vikur. Við vinnuskólann starfa 13 flokkstjórar.
Verkefnin eru fjölbreytt og samfélagslega mikilvæg rakstur eftir slátt, Illgresiseyðing úr beðum, hreinsun stétta og opinna svæða og almenn fegrun bæjarins.
Sjávarútvegsskóli unga fólksins – rótgróið og vinsælt framtaksverkefni
Sjávarútvegsskólinn er í boði fyrir 14 ára nemendur á sínu fyrsta ári í vinnuskólanum. Skólinn á rætur sínar að rekja til Neskaupstaðar árið 2013, þegar Síldarvinnslan stofnaði hann fyrst. Í gegnum árin hefur hann þróast og breyst, og árið 2016 tók Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri við skólahaldinu. Síðan þá hefur starfsemi skólans breiðst út um landið og er nú rekin í samstarfi við sjávarútvegsfyrirtæki og vinnuskóla sveitarfélaga.
Á Austfjörðum er samstarfið áfram sterkt við Síldarvinnsluna í Neskaupstað og Loðnuvinnsluna á Fáskrúðsfirði, þar sem nemendur fá að kynna sér starfsemi fyrirtækisins, heimsækja skip, vinnslustöðvar og önnur tengd fyrirtæki á borð við veiðarfæragerðir.
Umsjón með kennslu í ár hafa Sóley Katrín Heiðarsdóttir og Kristianna Arnardóttir, báðar sjávarútvegsfræðingar. Þær kenna meðal annars á Austfjörðum, Húsavík, Þorlákshöfn og Ísafirði.
Samtal og hvatning frá bæjarstjóra
Jóna Árný átti ánægjulegt samtal við bæði nemendur og starfsfólk skólanna, þar sem hún ræddi við þau um sumarstarfið, áhugamál þeirra og framtíðardrauma. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að ungt fólk fái tækifæri til að kynnast fjölbreyttum störfum og þróa ábyrgð gagnvart samfélaginu.
„Það er virkilega gaman að hitta þessi duglegu og áhugasömu ungmenni. Þau eru að gera frábæra hluti og fá um leið dýrmæta reynslu sem mun nýtast þeim vel í framtíðinni,“ sagði bæjarstjórinn að heimsókn lokinni."
Sjávarútvegsskólinn og vinnuskólinn eru hvort tveggja dýrmætir þættir í uppbyggingu framtíðarsamfélagsins – þar sem ungmenni fá tækifæri til að læra, skapa og vaxa.