Framkvæmdir við ofanflóðavarnir við Nes- og Bakkagil í Neskaupstað hafa gengið vel að undanförnu og mega teljast nokkuð á undan upphaflegri áætlun, enda hefur tíðarfar þessa árs verið með eindæmum hagstætt. Lokið er við uppsetningu 14 af 20 keilum og vinna við grindarkerfi þvergarðs er hafin. Tekin hefur verið ákvörðun um að keilum verði fjölgað um fimm.
26.08.2025
Framkvæmdir við ofanflóðavarnir við Nes- og Bakkagil í Neskaupstað

Utan á hverja röð bætist við ein keila að ystu keilu í neðri röð undaskilinni, hvar viðbótarkeilurnar verða tvær. Vinna við þessar keilur mun bíða næsta árs.
Á næstunni verður mest unnið í styrkingarkerfi þvergarðs og bakfyllingu, auk klapparlosunar. Ein losun er eftir fyrir ofan Drangagilsgarð en að öðru leyti verður klöpp unnin úr svokölluðum Vatnshól efst á framkvæmdasvæði. Til viðbótar verður unnið við hina ýmsu verkþætti og má þar meðal annars nefna yfirborðsfrágang á efnisgeymslusvæði utan við vinnubúðir verktaka, en reiknað er með að hluti af því efni verði nýttur í bakfyllingu þvergarðs á seinni stigum verksins.