Nú stendur undirbúningur næsta skólaárs sem hæst. Starfsfólk grunnskólanna á Austurlandi sóttu fjölbreytt námskeið dagana 8. til 14. ágúst. Námskeiðin eru skipulögð í samstarfi allra sveitarfélaganna á Austurlandi. Starfsfólk sækir einnig þekkingu víða annars staðar t.d. hafa nokkrir kennarar tekið þátt í námskeiðum um byrjendalæsi frá HA og starfsfólk Nesskóla fór í námsferð til Finnlands.
Skólabyrjun grunnskóla Fjarðabyggðar skólaárið 2025 til 2026

Næst taka við starfsdagar grunnskólanna þar sem loka hönd verður lögð á undirbúning fyrir móttöku nemenda. Á morgun þriðjudaginn 19. ágúst verður sameiginlegur starfsdagur allra starfsmanna skólanna sem hittast í Grunnskóla Reyðarfjarðar.
Nemendur verða ýmist boðaðir í viðtöl eða á kynningarfundi í skólunum í lok vikunnar, eins og nánar er lýst í tölvupóstum frá hverjum skóla til foreldra og nemenda. Kennsla í grunnskólunum hefst samkvæmt stundaskrá mánudaginn 25. ágúst. Innritun í skólana fer fram hjá viðkomandi skóla.
Skóladagatöl eru birt á vef allra skólanna og þar má m.a. sjá að vetrafrí verða í öllum skólunum 29. -31. október og 19. – 21. febrúar, síðasti kennsludagur fyrir jólaleyfi er 19. desember og fyrsti kennsludagur á nýju ári verður 5. janúar, starfsdagur vegna kennaraþings verðu 26. september og 2. janúar er einnig starfsdagur í öllum skólunum, sameiginlegur íþróttadagur eldri nemenda verður 13. maí og síðasti skóladagur ársins verður 5. júní.
Ýmsir aðrir viðburðir í skólastarfinu s.s. árshátíð, foreldraviðtöl, útivistardagar, þemadagar og starfsdagar eru á mismunandi tímum eftir skólum í samræmi við þarfir, hefðir og venjur í hverjum byggðarkjarna.
Yfir 600 nemendur verða í grunnskólum Fjarðabyggðar í vetur.