Föstudaginn 25. júlí næstkomandi, munu Skapandi Sumarstörf opna lokasýninguna sína og þar með ljúka enn einu kraftmiklu og spennandi sumri. Eins og í fyrra hitti hópurinn Jónu Árný, bæjarstjóra áður en undirbúningur sýningarinnar hófst, þar sem þau áttu létt og skemmtilegt samtal um sumarið og framtíð Fjarðabyggðar. Fjölmörg málefni voru rædd, þar á meðal léttúðleg beiðni hópsins um að bæjarstjórinn beiti sér fyrir því að KFC komi til Fjarðabyggðar.
23.07.2025
Lokasýning Skapandi sumarstarfa

Hópurinn hefur verið virkur í sumar. Í ár tók hópurinn viðtöl við skapandi einstaklinga úr samfélaginu, tók þátt í 17. júní hátíðarhöldunum í Breiðdalsvík og sumarsólstöðuhátíðinni á Seyðisfirði, auk þess að taka þátt í fjölmörgum vinnustofum um verkefnastjórnun, stafræna list, keramík og fleira. Hópurinn aðstoðaði einnig við sumarsmiðjur Menningarstofu fyrir börn.
Opnun sýningarinnar á lokaverkum hópsins verður föstudaginn þann 25. júlí kl. 17:00–19:00. Hér er stutt yfirlit yfir verk hvers og eins:
- Emelía Ólöf Aronsdóttirsýnir handunnin hekluð verk og armbönd innblásin af samveruanda Dungeons & Dragons, þar sem hún tengir saman hefðbundið handverk við sköpun og vináttu í kjölfar COVID.
• Garðar Antonio Jimenezsýnir draumkennda gjörningainnsetningu sem fjallar um hugmyndakreppu og togstreituna á milli framleiðni og freistingar.
• Jakob Kristjánsson frumflytur tilfinningaþrungið EP innblásið af Doom Eternal, þar sem myndrænar útfærslur dýpka áhrif hvers lags.
• Hrefna Ágústa Marinósdóttir sameinar fjölskyldumyndir úr safni langafa síns við hreyfimyndir gerðar með hjálp gervigreindar, þar sem tíminn sveigist og myndar súrrealíska sýn á síbreytilega náttúru Íslands.
• María Rós Steindórsdóttir málar þjóðsagnaverur sem leynast í nútíma Fjarðabyggðar, þar sem gamlir draugar vakna til lífsins í vatnslitum.
• Þór Theodórsson sýnir draumkenndar ljósmyndir sem kanna viðkvæmni og jafnvægi í gegnum takt sólarinnar og tunglsins.
Sýningin verður einnig opin yfir helgina, laugardag og sunnudag, frá kl. 12:00 til 16:00.