mobile navigation trigger mobile search trigger
18.08.2025

Tony & Svens: Partýbingóið sem kveikti stemninguna á Austfjörðum

Þeir eru ungir, kraftmiklir og fengu hugmynd síðasta sumar sem hefur slegið í gegn. Anton Berg Sævarsson (21) og Sveinn Sigurbjarnarson (20) – betur þekktir sem Tony og Svens – hafa á einu ári breytt skemmtanalífi á Austfjörðum með partýbingóum sínum.

Tony & Svens: Partýbingóið sem kveikti stemninguna á Austfjörðum

Anton og Sveinn eru báðir aldir upp á Eskifirði. Anton er húsasmiður og DJ sem hefur einnig starfað í félagsmiðstöðinni Knellunni, en Sveinn er verkefnastjóri hjá Tanna Travel og heldur úti TikTok-reikningnum Fjármálafréttir. Báðir byrjuðu þeir í haust í viðskiptafræði, Anton við Háskólann í Reykjavík og Sveinn við Háskólann á Akureyri.

Hugmyndin að partýbingóinu kviknaði síðasta sumar þegar Anton sá tækifæri til að lífga upp á skemmtanalífið á svæðinu. „Ef það er eitthvað sem Íslendingum þarf ekki að kenna, þá er það að spila bingó og skemmta sér,“ segir hann. Félagarnir tóku höndum saman, skipulögðu fyrsta viðburðinn frá grunni og héldu hann á Randulffssjóhúsi síaðsta haust. Húsið fylltist og stemningin fór fram úr öllum væntingum. „Eftir það var engin leið til baka,“ segja þeir og þakka sérstaklega vinum Valhallar fyrir stuðninginn í byrjun.

Á aðeins einu ári hafa Tony og Svens skipulagt fimm viðburði á Randulffs, tvo í Valhöll um páskana og sjómannadagshelgina og tekið þátt í þremur útihátíðum: Á Stöð í Stöð, Frönskum dögum og Neistaflugi. Alls staðar hefur verið fullt hús og stemningin í hámarki. Stærsti viðburðurinn til þessa var á Neistaflugi í Egilsbúð þar sem tæplega 500 manns fylltu salinn. „Sumir komust ekki inn og aðrir mættu jafnvel með eigin tjaldstóla til að tryggja sér sæti“.

Þótt upphafið sé í Fjarðabyggð hafa þeir þegar farið út fyrir heimabyggðina. Þeir hafa haldið partýbingó bæði í Reykjavík og á Akureyri, og segjast tilbúnir að skemmta hvar sem er á landinu. Þá eru þeir einnig farnir að stíga sín fyrstu skref í veislustjórnun, sem þeir eru afar spenntir fyrir.

Lykillinn að stemningunni, segja þeir, sé einfaldur: skipulag og eigin gleði. „Við leggjum mikla vinnu í undirbúninginn, en það sem skiptir mestu máli er að við skemmtum okkur sjálfir alveg jafn mikið og gestirnir. Orkan smitar út frá sér og við viljum að fólk á öllum aldri geti tekið þátt.“

Partýbingóin eru í samstarfi við fjölmörg fyrirtæki, þar á meðal Blush, sem setur litríkan svip á vinningana. Þeir taka þó fram að verðlaunin skipti minna máli en stemningin sjálf. „Þegar loka vinningurinn er dreginn er meirihluti salsins yfirleitt ekkert að pæla í tölunum heldur bara að hafa gaman,“ segja þeir.

Félagarnir líta á partýbingóin sem mikla æfingu í að koma fram, vinna saman og skapa stemningu. Þeir hvetja jafnframt ungt fólk til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd, stórum sem smáum. „Það þarf ekki alltaf að byrja stórt – stundum nægir að prófa, leggja hjartað í verkefnið og leyfa því að vaxa,“ segja Tony og Svens að lokum.

Fleiri myndir:
Tony & Svens: Partýbingóið sem kveikti stemninguna á Austfjörðum
Tony & Svens: Partýbingóið sem kveikti stemninguna á Austfjörðum

Frétta og viðburðayfirlit