mobile navigation trigger mobile search trigger
06.08.2025

Neistaflug 2025 heppnaðist frábærlega – Fjölbreytt dagskrá og glimrandi stemning

Neistaflug var haldið í 32. sinn um verslunarmannahelgina í Neskaupstað og fór fram með glæsibrag. Hátíðin stóð fyrir sínu sem einn stærsti og fjölbreyttasti viðburður ársins í Fjarðabyggð. Hún laðaði að sér bæði heimamenn og gesti víðs vegar að af landinu, sem fylltu bæinn lífi, gleði og fjöri.

Neistaflug 2025 heppnaðist frábærlega – Fjölbreytt dagskrá og glimrandi stemning
Mynd: Hlynur Sveinsson

Fjölskylduvænt og skemmtilegt fyrir alla

Að venju bauð Neistaflug upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla aldurshópa. Börn nutu sín í leikjum, hoppuköstulum og fjölskyldutengdum viðburðuðum.

Tónlistarveisla sem gleymist ekki

Sem endranær, þó gnótt sé af skemmtilegri afþreyingu alla daga Neistaflugsins, er það gjarnan tónlistarfólkið sem trekkir hvað flesta. Þar hafa skipuleggjendur ekki slegið slöku við – helstu nöfn tónlistarsenunnar á Íslandi var mætt á Neistaflug. 

Tónleikaveislan hófst með Stebba og Eyfa í Egilsbúð á fimmtudagskvöld og síðan tók Herra Hnetusmjör við keflinu ásamt Færibandinu á setningu hátíðarinnar á föstudagskvöld, áður en dansleikur tók við fram á nótt. Á sunnudagskvöld hitaði Katrín Halldóra upp fyrir aðalviðburðinn, stórtónleika Neistaflugs. Þar stigu á stokk sjálfir Eurovision-strákarnir í VÆB og Mugison með sína hljómsveit og heimamennirnir í SúEllen sem tóku sín vinsælustu lög við mikinn fögnuð viðstaddra.

Það var svo Einar Ágúst sem setti glæsilegan endapunkt á hátíðina Beituskúrnum á sunnudagskvöldið. 

Samheldni og gleði einkenndu helgina

Veðurguðirnir voru að mestu leyti hliðhollir hátíðinni og stemningin í bænum var einstaklega góð alla helgina. Skipuleggjendur lýstu yfir ánægju með þátttökuna og það hvernig bæjarbúar tóku virkan þátt í undirbúningi og framkvæmd hátíðarinnar. Neistaflug er nú orðið órjúfanlegur hluti af bæjarmenningu Neskaupstaðar og Fjarðabyggðar.

„Það er ómetanlegt að sjá bæinn fyllast af fólki sem nýtur lífsins saman í gleði og samhug. Þetta var virkilega vel heppnuð hátíð,“ sagði María Bóel Guðmundsdóttir, framkvæmdarstjóri hátíðarinnar.

Áfram Neistaflug!

Að lokinni hátíð er þegar hafin undirbúningsvinna fyrir næsta ár, en vonir standa til að Neistaflug 2026 verði ekki síður glæsileg. Skipuleggjendur hátíðarinnar þau María Bóel Guðmundsdóttir, Guðrún Smáradóttir, Eyrún Björg Guðmundsdóttir, Guðjón Birgir Jóhannson og Sævar Steinn þakka öllum gestum, sjálfboðaliðum og styrktaraðilum fyrir frábæra helgi og hlakka til að taka á móti gestum að ári.

Fleiri myndir:
Neistaflug 2025 heppnaðist frábærlega – Fjölbreytt dagskrá og glimrandi stemning
Neistaflug 2025 heppnaðist frábærlega – Fjölbreytt dagskrá og glimrandi stemning
Neistaflug 2025 heppnaðist frábærlega – Fjölbreytt dagskrá og glimrandi stemning

Frétta og viðburðayfirlit