Listamaðurinn Stefán Óli Baldurson, einnig þekktur sem Mottan, hefur nú lagt lokahönd á glæsilegt listaverk á sementstönkunum á Reyðarfirði. Verkið markar upphaf átaks á útilistaverkum í Fjarðabyggð og er jafnframt það stærsta sem listamaðurinn hefur tekist á við hingað til, en tankarnir eru um 30 metra háir og 8 metrar í þvermál.
Nýtt útilistaverk prýðir sementstankana á Reyðarfirði

Verkið er afrakstur samstarfs milli Menningarstofu Fjarðabyggðar, Bæjarráðs og fleiri aðila. Menningarstofa lagði fram fjármagn í verkefnið, fyrirtækið Skútaberg veitti aðgang að tönkunum og Guðmundur Pálsson hjá ECR lagði til körfubílinn og sá um rekstur hans á meðan á vinnu stóð. Í gær var verkinu formlega lokið og Stefán hlaut kveðjugjöf frá Fjarðabyggð til að þakka honum fyrir vel unnið verk.
Innblástur verksins er sóttur í svarthvíta ljósmynd sem sýnir börn að leik á eða skömmu eftir stríðsárin. Með verkinu er vakin athygli á Stríðsárasafninu á Reyðarfirði, þar sem mikil uppbygging er framundan. Að loknu sumaropnunartímabili safnsins verður hafist handa við að reisa nýtt móttökurými, og í framhaldi af því þrjá bragga og sýningarrými.
Verkið á sementstönkunum er liður í stærra átaki í útilistaverkum í Fjarðabyggð og sýnir vel hvernig list getur tengt saman sögu, samfélag og umhverfi á áhrifaríkan hátt.
Hægt er að lesa nánar um verkið og viðtal við Jón Björn Hákonarson, formann Menningar- og safnanefndar, á vef Austurfréttar:
Lokið við gerð listaverks á sementstankana á Reyðarfirði – Austurfrétt
Myndir: Gunnar Gunnarsson hjá Austurfrétt