Franskir dagar voru settir á fimmtudaginn var, þegar Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri setti hátíðina að viðstöddu fjölmenni. Í kjölfarið á setningunni var haldið í hina árlegu Kenderísgöngu, þar sem þáttakendur halda í smá óvissuferð um Fáskrúðsfjörð þar sem ýmislegt er á boðstólnum.
Franskir dagar

Þó setningin hafi farið fram á fimmtudeginum, var hátíðinni þjófstartað á miðvikudaginn, með göngu í boði Göngufélags Suðurfjarða, en gengið var inn Tungudal eftir gönguleið um Reindalsheiði og um kvöldið var hið árlega pöbbkviss, sem fram fór í Skrúð. Á fimmtudeginum var svo hin árlega reiðhjólakeppni Tour de Fáskrúðsfjörður.
Að venju komu fulltrúar frá vinabæ Fjarðabyggðar í heimsókn en í þetta sinn komu fimm fulltrúar frá Gravelines. En það voru þau Michéle Kerckhof, varaborgarstjóri Gravelines, en þess má geta að þetta er hennar áttunda sinn sem hún kemur á franska daga. Modu Fall, bæjarfulltrúi Gravelines, Cédric Liagre, bæjarfulltrúi og þau Annie Ardaens og eiginmaður hennar Francis Luyce.
Vinabæjarsamskipti Gravelines og Fjarðabyggðar má rekja til ársins 1991, þegar Fáskrúðsfjörður og Gravelines gerðust vinabæir. Við sameiningu Fáskrúðsfjarðar og Fjarðabyggðar árið 2006 bættist Gravelines við sem vinabær Fjarðabyggðar.
Á fimmtudeginum var byrjað í Stríðsárasafninu á Reyðarfirði, þar tók á móti þeim Árni Pétur, verkefnastjóri safna og fór yfir sögu safnsins og sýningu þess. Að því búnu var haldið á bæjarskrifstofur sveitarfélagsins, þar sem Jóna Árný, bæjarstjóri tók á móti gestunum. Var svo haldið til Fáksrúðsfjarðar þar sem Fjóla Þorsteinsdóttir tók á móti frönsku gestunum og fór með þau í gegnum safnið Frakkar á Íslandsmiðum, að því búnu var farið í kapelluna og Norðurljósasafnið.
Dagskrá Franskra daga hélt svo áfram á föstudeginum og var byrjað í heimsókn í Loðnuvinnsluna þar sem Garðar Svavarsson, framkvæmdarstjóri tók á móti hópnum í Watnehúsinu og kynnti fyrir þeim starfsemi fyrirtækisins. Að því búnu var haldið yfir í frystihúsið og framleiðslan skoðuð. Þar tók á móti okkur Þorri Magnússon, framleiðslustjóri og fór yfir framleiðsluferlið.
Eftir hádegi var svo farið í siglingu með björgunarbátnum Hafdísi þar sem Hans Óli, skipstjóri og Ingvar Björnsson sigldu með hópinn út í Skrúð. Um kvöldið var svo kvöldverður á L’Abri og brekkutónleikarnir á frönskum dögum.
Laugardagurinn hófst að venju með helgistund í frönsku kapellunni og að henni lokinn var haldið út í franska grafreitinn þar sem haldin var minningarathöfn til minningar þeirra sjómanna sem fórust við strendur Íslands.
Eftir að hafa hvílst í stutta stund tók við hefðbundin dagskrá franskra daga og afhending á bátnum Rex, en það var Guðmundur Guðlaugsson, skipasmiður sem gaf vinnu sína við endursmíðina og Fjarðabyggð kostaði flutning bátsins og efni. Jón Björn, forseti bæjarstjórnar og Hrefna Eyþórsdóttir færði þeim feðgum þakklætisvott fyrir hönd íbúa.í kjölfarið var hátíðarkvöldverður í boði forseta bæjarstjórnar. Í kvöldverðinum fór Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar, stuttlega yfir samskiptin og sameiginlega sögu sveitarfélaganna ásamt Michéle Kerckhof, bæjarfulltrúi frá Gravelines. Að því loknu var skipts á gjöfum.
Á sunnudeginum var svo kveðjustund í Fáskrúðsfjarðarkirkju og að því loknu var haldið upp á flugvöll og gestirnir kvaddir.