mobile navigation trigger mobile search trigger
28.08.2025

Sinfó í sundi í sundlaug Eskifjarðar og Stefánslaug, Norðfirði.

Næstkomandi föstudagskvöld geta sundlaugargestir í sundlauginni á Eskifirði og Stefánslaug á Norðfirði notið þess að hlusta á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í beinni útsendingu en þá verður tónleikunum Klassíkin okkar útvarpað við fjölmargar sundlaugar landsins.

Sinfó í sundi í sundlaug Eskifjarðar og Stefánslaug, Norðfirði.

Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur upp á 75 ára afmæli sitt á árinu og þar að auki er þetta í 10. sinn sem tónleikarnir Klassíkin okkar fara fram í Eldborg í Hörpu í samvinnu við RÚV. Af því tilefni leitaði hljómsveitin eftir samstarfi við sundlaugar landsins um að þessum vinsælu tónleikum yrði útvarpað í beinni á sundlaugarbökkum.

Tónleikarnir hefjast kl. 20:00 og sem fyrr segir verður hægt að hlusta á þá í sundlauginni á Eskifirði og Stefánslaug á Norðfirði. 

Tónleikarnir Klassíkin okkar bera að þessu sinni yfirskriftina Söngur lífsins. Þar munu margir af okkar fremstu söngvurum flytja tónlist sem tengist hinum ýmsu athöfnum og viðburðum á lífsleiðinni; frá tregafullum kvöldsöngvum til glaðværra gamansöngva.

Einsöngvarar eru Dísella Lárusdóttir, Eggert Reginn Kjartansson, GDRN, Ólafur Kjartan Sigurðarson, Pálmi Gunnarsson, Rebekka Blöndal og Valdimar Guðmundsson. Söngsveitin Fílharmónía mun einnig taka lagið. Bjarni Frímann Bjarnason mun halda um tónsprotann og kynnar verða Halla Oddný Magnúsdóttir og Guðni Tómasson.

Frétta og viðburðayfirlit