Fjölmennt var á Eskifirði um síðustu helgi þegar bæjarhátíðin Útsæðið var haldin með fjölbreyttri dagskrá fyrir alla aldurshópa, dagana 13.–17. ágúst. Gestir nutu lifandi tónlistar, leikja og ævintýra fyrir börn og fullorðna. Veðrið lék við hátíðargesti og skapaði hlýlega og bjarta stemningu um allan bæ, sem klæddist hátíðarbúningi alla helgina.
Eskifjörður í hátíðarskapi – Útsæðið tókst með eindæmum

Útsæðið stóð yfir í fimm daga og dró að fjölda gesta víða að, bæði heimamenn og gesti úr nágrannasveitarfélögum. Dagskráin bauð upp á Pub Quiz í Valhöll á miðvikudagskvöldi, kvikmyndasýningar í Valhöll Bíó, uppistand með Tvíhöfða og fjörugt ball með Andra Bergmann og DJMax á laugardagskvöldi. Á föstudegi vakti froðudiskó í Sundlaug Eskifjarðar mikla kátínu og fyllti laugina af hlátri og gleði.
Laugardagurinn var hápunktur hátíðarinnar. Kassabílarallý Tanna Travel vakti mikla athygli, þar sem ungir sem aldnir kepptu á litríku bílunum sínum. Eskjutún umbreyttist á sama tíma í líflegt hátíðarsvæði með markaðstjöldum, hoppuköstulum, fjölskylduskemmtun á sviði og stemningu. Þar var gestum einnig boðið upp á 10 heillgrilluð lömb og pylsur, sem naut mikilla vinsælda. Fjölskyldur settust saman yfir máltíðinni, börn hlupu milli leikja, og andrúmsloftið var einstakt.
Auk þessa var kökukeppni krakka haldin og færði keppnisgleði og fjölda ljúffengra kaka sem bæði dómnefnd og áhorfendur fengu að smakka. Bænum var jafnframt þemaskipt eftir litum og tóku íbúar Eskifjarðar því verkefni með alvöru og leikgleði. Íbúar kepptust um að skreyta hverfin og voru verðlaun veitt fyrir best skreyttasta hverfið.
„Útsæðið sýnir hvað Eskifjörður er lifandi samfélag – fólk kemur saman, hjálpast að og skapar minningar. Við erum ótrúlega þakklát fyrir frábæra mætingu og jákvætt viðmót allan tímann,“ sagði Kiddi Þór, einn af aðalskipuleggjendum Útsæðisins, og bætti við að án samstöðu og elju fjölmargra sjálfboðaliða hefði slíkt uppátak aldrei getað tekist.
Þátttaka var afar góð og samstarf skipuleggjenda og sjálfboðaliða gekk hnökralaust. Skipulag var til fyrirmyndar og umgjörðin snyrtileg, sem gerði það að verkum að gestir upplifðu hátíðina á sem bestan hátt. Fjölmörg fyrirtæki og félagasamtök studdu við hátíðina sem styrktaraðilar, auk þess sem íbúar lögðu sitt af mörkum með þátttöku og stuðningi. Þau og allir gestir eiga bestu þakkir skildar fyrir að gera Útsæðið að sannkölluðum hátíðarhátindi sumarsins á Eskifirði.